Fréttasafn



31. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Ræddu um framtíðarmatvæli á Íslandi

Samtök iðnaðarins og Íslandsstofa stóðu fyrir málstofu í Nýsköpunarvikunni um framtíðarmatvæli á Íslandi undir yfirskriftinni Matvæli morgundagsins. Umræðuefni málstofunnar sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica var matvæla framtíðarinnar og hvaða skref íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru að stíga til framtíðar og til aukinnar sjálfbærni. Fjallað var meðal annars um hver þróun matvæla verður á næstu áratugum og hvaða áhrif viðhorf okkar og hefðir hafa á þá þróun.

Björn Örvar, vísindastjóri og stofnandi ORF Líftækni, fjallaði um vistkjöt og þau skref sem fyrirtækið hefur stigið í framleiðslu á vaxtaþáttum eða frumuvökum.

Sigurður Markússon, framkvæmdarstjóri þróunar hjá Sæbýli, gerði grein fyrir framleiðslu fyrirtækisins á japönskum sæeyrum (e. Abalone) en fyrirtækið fyrirhugar mikla uppbyggingu á komandi árum en sæeyru eru meðal verðmætustu eldistegundum í heimi.

Björn V. Aðalbjörnsson, meðstofnandi og rannsóknar- og þróunarstjóri Loki foods, fjallaði um framleiðslu fyrirtækisins á sjávarafurðum úr plöntum. 

Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, fjallaði um ný prótein í nútíð og framtíð og meðal annars um mikilvægi þess að tryggja nægjanlegt magn hágæða próteina úr sjálfbærri framleiðslu.

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra ORF Líftækni, var fundarstjóri.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Markússon, Björn Örvar, Berglind Rán Ólafsdóttir, Björn V. Aðalbjörnsson og Margrét Geirsdóttir.