Rætt um áskoranir í iðnnámi í heimsókn SI í FNV
„Við þurfum að efla iðnnám frá öllum hliðum,“ segja nýir stjórnendur Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki
Fulltrúi Samtaka iðnaðarins í mennta- og mannauðsmálum heimsótti nýverið Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki. Á fundum með nýjum stjórnendum og nemendum skólans var rætt um stöðu iðnnáms og þær áskoranir sem blasa við þar á meðal óvissu um útskriftarreglur frá bóklegaþætti iðnnáms, plássleysi í húsnæði og mikilvægi fjölgunar nemendaígilda.
Skortur á húsnæði og fjölgun nemenda
Stjórnendur FNV bentu á að fjöldi nemenda í iðnnámi hafi aukist á undanförnum árum og að húsnæði og aðstaða haldi ekki í við þá þróun. Skólinn glími nú við plássleysi sem takmarkar möguleika til að taka við fleiri nemendum, sem og til að halda úti fullnægjandi verklegu kennslu. Mikilvægt sé að tryggt sé nægt fjármagn og fjölgun nemendaígilda til að mæta þörfum svæðisins og eftirspurn eftir iðnnámi.
„Við þurfum að efla iðnnám frá öllum hliðum bæta aðstöðu, tryggja úrræði fyrir alla nemendur og styrkja samstarf við atvinnulífið,“ sögðu stjórnendur FNV. Þá kom fram að skólinn sé tilbúinn til að taka virkan þátt í þróun í samvinnu við alla viðkomandi aðila.
Þakklæti til atvinnulífsins
Á fundinum kom einnig fram þakklæti stjórnenda til fyrirtækja í heimabyggð sem hafa lagt sitt af mörkum til að efla iðnmenntun á svæðinu. Meðal annars hafa fyrirtæki gefið skólanum nýjustu tæki og búnað sem nýtist nemendum við verklega kennslu. Slíkt samstarf er mikilvægt fyrir gæði námsins og tengir skólastarf beint við þarfir atvinnulífsins.
Nauðsyn skýrrar framkvæmdar og samráðs
Samtök iðnaðarins leggja áfram áherslu á að brautskráning úr bóklega þætti iðnnáms séu eins og þær voru til ársins 2024. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla lýkur námi í löggiltum iðngreinum með sveinsprófi, ekki með útskrift úr skóla. Vinnustaðanám er ekki tímabundið, heldur metið út frá færni og hæfni á vinnustað.
SI hefur kallað eftir skýringum frá ráðuneytinu og telur mikilvægt að komið sé á samræmdri framkvæmd sem tryggir jafnræði nemenda, bætir námsframvindu og stuðlar að trausti á menntakerfinu.
Óvissa um útskrift úr bóklega þætti iðnnáms, skapar töf og óánægju meðal nemenda
Eins og víða annars staðar á landinu ríkir nú óvissa um útskrift nemenda í bóklega þætti námsins í löggiltum iðngreinum vegna breyttrar túlkunar mennta- og barnamálaráðuneytisins á útskriftarreglum. Þetta hefur leitt til þess að nemendur sem hafa lokið öllum bóklegum hluta náms fá ekki brautskráningu fyrr en vinnustaðanámi er lokið. Þetta hefur áhrif á námsframvindu, eykur kostnað og bitnar beint á nemendum, að þeirra eigin sögn.
Nemendur lýstu því að þeir sætu eftir í kerfinu og upplifðu skort á upplýsingum og stuðningi. Vinnustaðanám hefjist oft ekki fyrr en eftir 18 ára aldur og geti því tafið útskrift um allt að eitt ár, jafnvel þótt nemendur hafi þegar lokið öllum bóklegum kröfum námsins. Ástæður þessa tengjast meðal annars vinnulöggjöf sem takmarkar möguleika fyrirtækja til að ráða starfsnema undir 18 ára aldri. Á meðan þurfi nemendur að greiða skólagjöld áfram og fá ekki að taka þátt í hefðbundnum skólaslitum og útskriftarathöfnum með samnemendum sínum eins og verið hefur meginregla allt fram til ársins 2024. Því sannarlega lýkur iðnnámi með sveinsprófi, en fá ekki starfstengd réttindi við útskrift úr skóla, þrátt fyrir að vinnustaðanámi sé lokið.
Traust menntakerfi og öflug iðnmenntun
Samtök iðnaðarins telja að öflug og aðgengileg iðnmenntun sé ein af grunnstoðum samkeppnishæfs atvinnulífs á Íslandi. Nauðsynlegt er að fjölga úrræðum, styrkja aðstöðu, efla samráð við atvinnulífið og tryggja að nemendur fái sanngjarna og skýra meðferð innan menntakerfisins óháð aldri eða aðstæðum.
Samtökin munu áfram vinna að því að stuðla að heildstæðri stefnumótun í iðn- og starfsnámi með nemandann í forgrunni og framtíðarþarfir atvinnulífsins að leiðarljósi.
SI mun áfram fylgja málinu eftir og vinna að því að iðnmenntun á Íslandi bjóði upp á skýrleika, sveigjanleika og jafnræði í takt við þarfir atvinnulífsins og framtíðar nemenda um land allt.




