Fréttasafn



11. des. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Meistarafélag Suðurlands Starfsumhverfi

Rætt um mannvirkjagátt á fundi MFS á Selfossi

Meistarafélag Suðurlands, MFS, hélt félagsfund á Hótel Selfossi fyrir félagsmenn sína og byggingarfulltrúa á Suðurlandi fyrir skömmu þar sem rætt var um hvernig byggingarstjórar, iðnmeistarar og byggingarfulltrúar eigi að vinna í mannvirkjagáttinni sem er í gildi.

Á fundinum kom fram að því miður sé staðan þannig að hvert og eitt byggingarfulltrúaembætti sé með sína eigin túlkun á því hvernig byggingarstjórar eigi að vinna og skila þeim gögnum sem krafist sé. Til að reyna að bæta þetta umhverfi ákvað stjórn MFS að biðja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) um að koma á opinn félagsfund og upplýsa um hvernig á að vinna í mannvirkjagátt. Frá HMS mættu þrír fulltrúar, Hugrún Ýr Sigurðardóttir, teymisstjóri mannvirkjaskrá, Jónas Þórðarson, mannvirkjaskrá, og Sara Sig Helgadóttir, verkefnastjóri hugbúnaðarþróunar, og fóru þau yfir hlutverk byggingarstjóra, iðnmeistara og byggingarfulltrúa. Það kom fram að full þörf væri á þessu samtali miðað við þær umræður sem sköpuðust á fundinum.

Í lok fundar kom fram að stjórn MFS telji að breytingar til batnaðar verði í starfsumhverfi þeirra félagsmanna í kjölfar þessa fundar þannig að kröfur um vinnubrögð þeirra verði því sem næst eins í öllum sveitafélögum á Suðurlandi. Þess má geta að félagsmenn MFS og byggingarfulltrúar á Suðurlandi hafa síðustu ár hist á fundum sem þessum til að reyna að bæta starfsumhverfið í mannvirkjagerð. Á fundinum kom fram vilji til að framhald verði á þessu samtali vegna þess að „samtal er lykill að árangri“.

Fundur-desember-2023_Selfossi_2