Rætt um öryggismál í mannvirkjagerð á fjarfundi
Fyrsti fundurinn í fjarfundaröð um öryggismál í mannvirkjagerð fór fram þriðjudaginn 11. febrúar. Fundaröðin er haldin á vegum Mannvirkis – félags verktaka í samstarfi við Vinnueftirlitið og stendur yfir fram á vor.
Á fundinum fjölluðu Þórdís Huld Vignisdóttir, leiðtogi straums vettvangsathugana og stafrænna samskipta hjá Vinnueftirlitinu, og Helga Bogadóttir, lögfræðingur á sviði vinnuverndar hjá Vinnueftirlitinu, um breytt hlutverk Vinnueftirlitsins og auknar heimildir. Greint var frá nýjungum er varða vinnuvélaréttindi, heimild til álagningu stjórnvaldssekta, nýju eftirliti með vinnustaðaskírteinum o.fl. Fram kom að Vinnueftirlitið leggur áherslu á að vinna með öllum atvinnurekendum í landinu að því markmiði að starfsfólk komi heilt heim.
Þá fjallaði Ingólfur Gissurarson, forstöðumaður gæða- og öryggismála hjá Íslenskum aðalverktökum, um stjórnun öryggismála hjá fyrirtækinu. Hann greindi m.a. frá vinnubrögðum sem fyrirtækið notar til að auka öryggi (lágmarka frávik) og fór yfir mikilvægi samþættingar stjórnunar, tækja og menningar til að ná markmiðum í öryggismálum. Þá kom hann inn á mikilvægi góðrar umgengni sem og eftirfylgni og staðfestu í öryggismálum. Til að breyta öryggismenningu er þátttaka stjórnenda og starfsfólksins sjálfs lykilatriði.
Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var fundarstjóri.