Fréttasafn24. maí 2022 Almennar fréttir Félag húsgagna– og innréttingaframleiðenda Mannvirki

Rætt um sjálfbæra framleiðslu húsgagna og húsmuna

Á aðalfundi Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda sem fór fram 23. maí í Húsi atvinnulífsins kynnti Ragna Sara Jónsdóttir hjá FÓLK Reykjavík - Nordic Development starfsemi fyrirtækisins og vegferð fyrirtækisins í átt að sjálfbærri framleiðslu húsgagna og húsmuna. Mikil ánægja var meðal fundarmanna með kynninguna og ræddu fundarmenn í kjölfar erindisins möguleika félagsins til áframhaldandi sóknar á því sviði í kjölfar vinnu félagsins með KPMG um útreikning kolefnisfótspors og sjálfbærni sem hófst á síðasta ári. 

Umhverfismálin í brennidepli hjá félaginu

Að lokinni kynningu Rögnu Söru tók Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, við fundarstjórn og var Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, kosin fundarritari fundarins. Eyjólfur Eyjólfsson, formaður Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda, fór yfir skýrslu stjórnar vegna síðasta starfsárs þar sem farið var yfir helstu áherslumál og verkefni félagsins. Í máli Eyjólfs kom meðal annars fram að umhverfismálin hafi verið í brennidepli í starfsemi stjórnar og verði það áfram. Framundan sé áframhaldandi starf félagsins við greiningu á sjálfbærni innlendrar húsgagna- og innréttingaframleiðslu sem muni væntanlega skila sér í möguleikum aðildarfyrirtækja til að nýta afurð þeirrar vinnu í sínum rekstri við útreikning kolefnisfótspors framleiðslu sinnar og sjálfbærni hennar. Að auki muni félagið einbeita sér að menntamálum og fjölgun félagsmanna auk annarra fjölmargra verkefna.

Eyjólfur Eyjólfsson endurkjörinn formaður stjórnar

Á fundinum var Eyjólfur Eyjólfsson endurkjörinn sem formaður stjórnar til aðalfundar 2023 auk þess sem Guðmundur Ásgeirsson og Jónas Kristinn Árnason voru kosnir stjórnarmenn til tveggja ára eða til aðalfundar 2024. Á aðalfundi 2021 voru Halldór Gíslason og Sigurður Ólafsson kosnir stjórnarmenn til tveggja ára, til aðalfundar 2023. Í varastjórn félagsins voru kosnir Gylfi Guðmundsson, Tómas Bergþór Þorbjörnsson og Jóhann Hauksson.