Fréttasafn14. des. 2023 Almennar fréttir Menntun

Rætt um tækifæri og áskoranir iðnnáms á Norðurlandi

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, heimsótti  Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA), Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi Eystra (SSNE) og nokkur aðildarfyrirtæki SI á ferð sinni um Norðurland fyrir skömmu. Á fundunum  var rætt um ný tækifæri og áskoranir í iðnnámi á öllum skólastigum. 

Á fundunum kom meðal annars fram að helstu áskoranir Verkmenntaskólans á Akureyri felast í að taka við fleiri nemendum en mikil ásókn er í nám skólans. VMA hefur þurft að hafna mörgum áhugasömum umsækjendum á síðustu önnum. Í nýlegri skýrslu starfshóps um innritun í iðnnám á haustönn 2022 kemur fram að VMA hafnar næstflestum nemendum í iðnnám. Mikill skortur er á iðnmenntuðu fólki á Norðurlandi á sama tíma og atvinnuhorfur hafa sjaldan verið betri. 

Einnig var rætt um leik- og grunnskóla og tækifæri til að gera betur í kynningu á iðnnámi með SSNE og þá í samstarfi við fyrirtæki og skóla á Norðurlandi. Nokkur aðildarfyrirtæki SI voru einnig heimsótt þar sem sí- og endurmenntun Iðunnar var kynnt fyrir forsvarsmönnum.

Myndin er tekin á fundi í Verkmenntaskólanum á Akureyri með nemendum og skólastjórnendum.