Fréttasafn



25. nóv. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Rætt við frambjóðendur í hlaðvarpi SAFL

Samtök fyrirtækja í landbúnaði, SAFL, sem eru meðal aðildarsamtaka SI gefa út hlaðvarpsþætti í aðdraganda kosninga sem nefnast Í hlaðinu. Í fyrsta þættinum ræðir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, við Jón Gunnarsson, aðstoðarmann matvælaráðherra og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og Jóhönnu Ösp Einarsdóttur, bónda og oddvita í Reykhólahreppi fulltrúa Samfylkingar, sem sjást á myndinni hér fyrir ofan.

Á vef SAFL kemur fram að þau séu sammála um að byggja þurfi kerfið á öllum stoðum sjálfbærni; umhverfislegri, efnahagslegri og ekki síst félagslegri. Í þættinum kemur fram að Samfylking vilji ekki lækka eða breyta tollum og að Sjálfstæðisflokkur vilji frekar framleiðslutengdan stuðning en búsetutengdan. 

Í öðrum þætti Á hlaðinu ræðir Margrét við Heiðbrá Ólafsdóttur, lögfræðing, kúabónda og frambjóðanda Miðflokksins í Suðurkjördæmi, og Daða Má Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands og varaformann Viðreisnar. Á vef SAFL kemur fram að þau hafi verið sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið framundan sé að tryggja nýliðun í landbúnaði.

Einnig er hlaðvarpsþáttur þar sem rætt er við Sigurð Inga Jóhannsson, fjármálaráðherra og formann Framsóknar, og Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, kynjafræðing og sérfræðing í málefnum hinsegin fólks frá Pírötum. Auk þess er hlaðvarpsþáttur SAFL þar sem rætt er við Pálínu Axelsdóttur Njarðvík, félagssálfræðing og fyrrverandi aðstoðarmann matvælaráðherra frá VG.

Á vef SAFL er hægt að nálgast hlaðvörpin.