Fréttasafn12. jan. 2015 Gæðastjórnun

Rafholt og Sveinbjörn Sigurðsson hljóta D-vottun

Rafholt ehf. og Sveinbjörn Sigurðsson hf. hafa staðist úttekt á fyrsta þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D-vottun.

D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Með gæðavottunarkerfinu er stefnt að því að gera rekstur fyrirtækja skilvirkari. Í því fer fyrirtækið í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind með það að markmiði að auka framleiðni og hagnað fyrirtækisins.

Um Sveinbjörn Sigurðsson hf.

Starfsemi félagsins hófst árið 1942 þegar Sveinbjörn Sigurðsson hóf rekstur í eigin nafni. Í fyrstu byggði hann eingöngu íbúðarhús en með árunum urðu verkefnin fjölbreyttari og í dag teljast til fyrri verka félagsins sundlaugar, brýr, einbýlishús, fjölbýlishús, leikskólar, menntastofnanir, atvinnu- og verslunarhúsnæði svo eitthvað sé nefnt.

Árið 1990 hætti Sveinbjörn Sigurðsson sjálfur afskiptum af rekstrinum og tóku synir hans við, þeir Árni, Sigurður og Sveinbjörn. Félagið hefur haldið áfram að vaxa og dafna með árunum og að jafnaði starfa um 50 fastir starfsmenn hjá fyrirtækinu auk 30-80 undirverktaka, allt eftir umsvifum hverju sinni.

Um Rafholt ehf.

Rafholt ehf. var stofnað árið 2002 og er einn stærsti atvinnuveitandi á sviði rafverktöku á Íslandi með um 60 starfsmenn.

Hjá Rafholt starfa rafvirkjar, tæknimenn og verkfræðingar með áratuga reynslu og sérfræðiþekkingu á sviði tölvu-, innbrots-, bruna-, og loftræstikerfa ásamt því að búa yfir sértækum tæknibúnaði og gæðavottunum á sviði almennra raflagna, ljósleiðaratenginga og fjarskiptakerfa.

Hjá Rafholt starfar öflug sveit á loftnets- og fjarskiptasviði sem býr yfir öflugum tækjabúnaði til að klára verkefni við erfiðar aðstæður. Í eigendahópi Rafholts eru rafvirkjameistarar, rafiðnfræðingar og verkfræðingar með áratuga reynslu og sérhæfingu í faginu.

Eigendur Rafholts eru Helgi I. Rafnsson framkvæmdastjóri, Grétar Magnússon stjórnarformaður, Vilhjálmur M. Vilhjálmsson þjónustustjóri, Jóhann R. Júlíusson deildarstjóri smáspennu, Rúnar Jónsson yfirverkstjóri og Borgþór Grétarsson skrifstofu- og gæðastjóri.