Fréttasafn



9. des. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Rafmennt fagnar reglugerð um vinnustaðanám

Rafmennt hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneytinu umsögn um reglugerð um vinnustaðanám þar sem stjórn Rafmenntar lýsir yfir ánægju með drögin. Í umsögninni segir að drögin veiti fyrirheit um að nú verði loks hægt að halda betur utan um nemendur og umsýslu vinnustaðanáms með auknu samtali skóla, umsýsluaðila og atvinnulífs. Þetta aukna samstarf verði lykillinn að því að hæfni nemenda nái þeim viðmiðum sem sett séu fram í starfalýsingum og hæfnikröfum en það sé mikið framfaraskref að nú eigi að miða við hæfni en ekki fjölda vikna. Þá kemur fram í umsögninni að það sé einnig ánægjulegt að verkferli um rafræna ferilbók sé skýrt og vægi hennar skilgreint í utanum haldi þjálfunar. Þessar áherslur séu í samræmi við þær sem rafiðnaðurinn lagði upp með árið 2016 að frumkvæði Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins. Þessu beri því að fagna. 

Þá kemur fram í umsögninni að Rafmennt lýsi sig reiðubúna að taka þátt í þeirri vinnu sem framundan sé. Stjórn Rafmenntar, sem samanstandi af fulltrúum Samtaka rafverktaka, SART, og Rafiðnaðarsambandi Íslands, RSÍ, sé þess fullviss að í þeirri vinnu sem framundan sé verði tekið á þeim málum sem út af standa. Passa þurfi upp á að samkeppnishæfi fyrirtækja eða eftirspurn og verðmæti starfsmanna með fullgild réttindi skerðist ekki með þjöppun ódýrs vinnuafls á einstök fyrirtæki í skjóli skólasamninga. Einnig þurfi að huga að kjaramálum nema, fjármögnun vinnustaðanámssjóðs og skýra vinnuferla samskipta allra aðila sem þurfi að koma að málinu nemum og fagreinum til heilla.

Hér er hægt að lesa umsögn Rafmenntar í heild sinni.