Fréttasafn



14. mar. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Raforkujarðstrengir geta hækkað orkureikning fyrirtækja

Fyrirtæki hafa áhyggjur af þeim mikla kostnaði sem tengist uppbyggingu flutningskerfis raforku á næstu árum enda munu notendur bera þann kostnað að fullu. Aukin áhersla á dýrar lausnir eins og jarðstrengi getur hækkað orkureikning fyrirtækja meir en ella og mun hafa áhrif á samkeppnishæfni Íslands, einkum fyrir meðalstóra og stóra raforkunotendur. Í ljósi þess telja samtökin að skoða eigi hvort ríkissjóður leggi til fjármagn til stærri verkefna í flutningskerfinu, sérstaklega þegar valdar eru dýrari lausnir en nauðsynlegar eru. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 179. mál. 

Í umsögninni segir að uppbygging flutningskerfis raforku sé mikið hagsmunamál fyrir iðnaðinn sem reiðir sig á örugga orkuafhendingu og aðgengi um allt land og að miklu skiptir að kerfinu sé viðhaldið til að tryggja áreiðanleika.

Framkvæma þarf kostnaðar-/ábatagreiningu 

Þá segir í umsögninni að framkvæma þurfi kostnaðar-/ábatagreiningu á mismunandi kostum með hagsmuni fyrirtækja í huga, til lengri tíma og skemmri. Það sé forsenda þess að þingið taki upplýsta ákvörðun um frekari aðgerðir. Verði niðurstaðan sú að velja dýrari lausnir, en nauðsynlegt er tæknilega séð, telja samtökin að skoða eigi hvort ríkið greiði viðbótarkostnað sem hlýst af. Sá kostnaður á ekki að falla að öllu leyti á notendur. Þetta á einnig við um línulagnir yfir hálendið sem fjallað er um í 4. lið tillögunnar.

Viðbragðstími lengri vegna bilana í jarðstrengjum en loftlínum

Í umsögninni kemur einnig fram að Samtök iðnaðarins hafi áhyggjur af að viðbragðstími vegna bilana í jarðstrengjum sé mun lengri en fyrir loftlínur. Ýmis iðnfyrirtæki þoli ekki að lokað sé fyrir raforkuflutning dögum saman svo þetta er raunverulegt vandamál sem ætti að nefna í þingsályktuninni. Tiltekið er í umsögninni að í mörgum tilfellum sé verið að vinna með upplýsingar sem ekki þola bið og nefnd dæmi eins og afgreiðsla lyfja á heilbrigðisstofnunum, tollafgreiðsla á sendingum og möguleg áhrif á fjármálastofnanir sem treysta á öruggan rekstur kerfa.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.