Raforkumál landsins komin að ákveðnum tímamótum
Raforkumál landsins eru hins vegar komin að ákveðnum tímamótum og nú þurfi að fara að móta framtíðina og forgangsraða, enda geri samfélagið orðið mun meiri kröfur til raforkuframleiðslu, flutnings og dreifingar. „Við mótun raforkustefnu gefst tækifæri til að fara yfir málin frá öllum hliðum og við sem notum 70% af framleiddri raforku á Íslandi erum svo sannarlega tilbúin í þessa umræðu.“ Þetta kemur meðal annars fram í frétt mbl.is um ársfund Samáls sem fram fór í vikunni þar sem vitnað er til orða Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls og stjórnarformanns Samáls, sem flutti erindi með yfirskriftinni Staða og framtíð íslensks áliðnaðar.
Áfram nánast allir vatnsaflskostir í einu fyrirtæki
Í frétt mbl.is er jafnframt sagt að engir virkjanakostir séu þó í boði fyrir nýja aðila á markaðnum næstu árin og líkt og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hafi bent á á ársfundi Landsvirkjunar, þá hafi breytingar á lögum sem auka áttu samkeppni á raforkumarkaði árið 2003 skilað litlu. „Þegar horft er til framtíðar í verkaskiptingu í nýtingaflokki rammaáætlunar þá eru það sömu þrjú fyrirtækin sem ráða öllu,“ sagði Ragnar. Breytingin sé sú að meiri áhersla sé lögð á jarðvarma, enda hafi Landsvirkjun og Orka Náttúrunnar hafa lýst því yfir að þau stefni ekki að nýjum virkjunum í náinni framtíð. „HS Orka virðist vera eina fyrirtækið sem hyggur á framkvæmdir á næstu árum. Það eru því litlar breytingar sjáanlegar. Engir virkjanakostir eru í boði á næstunni fyrir nýja aðila á markaðnum og það verða áfram nánast allir vatnsaflskostir í einu fyrirtæki.“
Á mbl.is er hægt að lesa fréttina í heild sinni. Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls og stjórnarformaður Samáls.