Fréttasafn



7. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Raforkuskerðing kemur illa við íslenskt efnahagslíf

„Það er mikið umhugsunarefni að þessi staða sé komin upp,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í forsíðufrétt Morgunblaðsins um tilkynningu Landsvirkjunar þar sem kemur fram að  skerða eigi þegar í stað afhendingu raforku til stórnotenda sem eru með skerðanlega skammtímasamninga, en þar á meðal eru fiskimjölsverksmiðjur, gagnaver og álver. 

Þá kemur jafnframt fram í frétt Morgunblaðsins að Landsvirkjun hafi einnig hafnað öllum óskum nýrra viðskiptavina um orkukaup vegna rafmyntagraftar. Einnig segir að upphaflega hafi skerðingin átt að hefjast í janúar en í tilkynningu Landsvirkjunar segi að nokkrar ástæður séu fyrir því að hún komi fyrr til framkvæmda en fyrirtækið segist meðal annars hafa fullnýtt getu flutningskerfisins til að flytja orku frá Norðausturlandi til álagspunkta á Suðvesturlandi. 

Dregur úr framleiðslu og verðmætasköpun

Í Morgunblaðinu segir Sigurður að þessi staða komi sér sérstaklega illa á þeim tíma sem hrávöruverð sé hátt, með hliðsjón af því að græn orkuskipti eru á næsta leiti. „Skerðingin kemur illa við íslenskt efnahagslíf og við hagkerfi Íslands.“ Hann bætir við að hún muni draga úr framleiðslu og verðmætasköpun. 

Þarf að afla meiri orku 

Sigurður segir í fréttinni að það sé rétt að ákveðnu marki að flutningskerfið sé ekki nógu skilvirkt en engu að síður sé það staðreynd að það þurfi að afla meiri orku. „Flutningskerfið er sannarlega eitthvað sem þarf að skoða og bæta en það breytir ekki því að það þarf að afla meiri orku á landinu vegna þess að eftirspurnin er sannarlega til staðar og líka með hliðsjón af loftslagsmálunum þar sem eftirspurn eftir grænni orku er að aukast á heimsvísu.“ 

Morgunblaðið, 7. desember 2021.