Fréttasafn



23. mar. 2018 Almennar fréttir

Raforkuverð hækkaði um 87%

 „Hjá Ölgerðinni hefur meðalverð á kíló-vattstund hækkað um 87% frá 2012 og 64% frá 2014 án þess að megi sjá að nokkur forsenda sé fyrir svona miklum hækkunum,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í Iðnþingsblaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu í gær um þær hækkanir sem hafa orðið í rekstrarumhverfi fyrirtækja að undanförnu, hann nefnir þar einnig launahækkanir og hækkun tryggingagjalds.

Hvað varðar hækkun á raforkuverði segir Andri Þór að orkufyrirtækin séu flest í eigu hins opinbera og megi því líta á hækkun raforku umfram það sem eðlilegt getur talist sem viðbótarskatt. „Íslensk fyrirtæki nutu áður góðs af því að raforka var ódýrari hér á landi en víða erlendis, en nú er það forskot óðara að hverfa og samkeppnishæfnin skert sem því nemur. Ekki er að sjá að neinar kostnaðarsamar framkvæmdir við uppbyggingu orkuinnviða geti skýrt þessa hækkun, heldur virðist hún fara beint inn í kerfið sem aukinn hagnaður, og áfram til eigenda orkufyrirtækjanna sem eru ríki og sveitarfélög.“ 

Geta illa keppt við breskan iðnað sem býr við lægri kostnað og stöðugri gjaldmiðil

Í viðtalinu við Andra Þór kemur einnig fram að innlendir framleiðendur geti illa keppt við breskan iðnað sem býr við lægri framleiðslukostnað á hverja einingu, stöðugri gjaldmiðil og lægri vaxtakostnað. Hann segir að í tilviki Ölgerðarinnar þá sé Pepsi Max sem framleitt er á Íslandi fyllilega sambærilegt við Pepsi Max frá Bretlandi nema hvað íslenska framleiðslan er á margan hátt kostnaðarsamari.“ Hann segir að með bættri samkeppnishæfni myndu skapast forsendur til að efla útflutning, sem myndi þýða betri nýtingu framleiðslutækja og vinnuafls, fjölgun starfa og lægra verð. 

Í Iðnþingsblaðinu er hægt að lesa viðtalið við Andra Þór í heild sinni.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, tók þátt í pallborðsumræðum um starfsumhverfi fyrirtækja á Iðnþingi, ásamt Bjarna Benediktsyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og Evu Hlín Dereksdóttur, framkvæmdastjóra Raftákns.

DSC_6440_1521818717273