Fréttasafn16. apr. 2020 Almennar fréttir

Rafrænn aðalfundur SI

Aðalfundur Samtaka iðnaðarins, Iðnþing, verður haldinn fimmtudaginn 30. apríl kl. 10.00–12.00, í fundarsalnum Hyl á 1. hæð í Borgartúni 35. Þar sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnarlæknis, að takmarka samkomur vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar hefur verið lagt bann við því að halda fjölmenna fundi. Í ljósi þess er einungis gert ráð fyrir að starfsmenn fundarins, kjörstjóri, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður mæti á fundinn. Aðrir fundarmenn taka eingöngu þátt með rafrænum hætti í gegnum forritið Zoom. Þess ber að geta að framhaldsaðalfundur verður haldinn í haust og þá fer fram síðari hluti Iðnþings, opið málþing um hagsmunamál iðnaðarins.

Skráning á fundinn fer fram með þeim hætti að fyrirsvarsmenn allra félagsmanna fá sendan tölvupóst miðvikudaginn 29. apríl með hlekk sem smellt er á og staðfesta þarf þátttöku á fundinum með rafrænum skilríkjum í farsíma. Eftir staðfestingu berst annar tölvupóstur með annars vegar hlekk á fundinn og hins vegar hlekk á fundargögn.

Mikilvægt er að upplýsingar um tengiliði fyrirtækisins séu réttar á Þínum síðum og eru félagsmenn hvattir til að uppfæra upplýsingar þar. Fyrirsvarsmaður fyrirtækisins sem skráður er sem rétthafi á aðalfundi mun eiga kost á að kjósa á aðalfundi fyrir hönd fyrirtækisins. Samtök fyrirtækja, þar með talin iðngreina- og meistarafélög, fara með atkvæði félagsmanna sinna á aðalfundi nema tilkynnt hafi verið um annað skv. 10. gr. laga SI.

Á dagskrá þessa hluta Iðnþings verðandi eftirfarandi mál tekin fyrir:

1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár

2. Framkvæmdastjóri leggur fram til úrskurðar endurskoðaða ársreikninga samtakanna fyrir liðið almanaksár, með athugasemdum endurskoðanda

3. Tillaga stjórnar um fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár

4. Launakjör stjórnar

5. Lýst kjöri formanns og meðstjórnenda

6. Lýst kjöri í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins

7. Kjörinn löggiltur endurskoðandi

8. Kosinn kjörstjóri og tveir aðstoðarmenn hans

9. Önnur mál

Aðrir lögbundnir dagskrárliðir, þ.e. lagabreytingar, verða teknir fyrir á framhaldsaðalfundi í haust.

Félagsmenn geta sent fyrirspurnir um aðalfundinn á mottaka@si.is.