Fréttasafn



27. apr. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Rafrænn fundur um hlutabætur og launavinnslu

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök stóðu fyrir rafrænum upplýsingafundi um hlutabætur og launavinnslu síðastliðinn miðvikudag. Á fundinum fjölluðu þeir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, og Gísli Davíð Karlsson, þjónustustjóri hjá Vinnumálastofnum, um fjölmörg álitamál sem upp hafa komið hjá fyrirtækjum við launaútreikninga vegna lækkaðs starfshlutfall og hlutabóta og þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir, til að mynda við greiðslu orlofsuppbóta.

Á fundinum kom meðal annars fram að um helmingur þeirra sem hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda um minnkað starfshlutfall falli undir þá sem eru í 25% starfshlutfalli. Þá kom fram að fjölmörg fyrirtæki hafa enn ekki skilað inn staðfestingu á minnkuðu starfshlutfalli sem gert er á vef Vinnumálastofnunar og voru atvinnurekendur hvattir til að skila inn staðfestingu hið fyrsta enda launaútreikningar stofnunarinnar að hefjast. Ásamt þessu bárust fundinum fjölmargar spurningar sem var svarað er varðar tæknilegar úrlausnir mála.

Ragnar hvatti félagsmenn til að hafa samband við vinnumarkaðssvið SA ef upp koma álitamál sem og að leita upplýsinga á vinnumarkaðsvef SA og á þjónustuvef Vinnumálastofnunar

Á lokuðu svæði Vinnumarkaðsvefs SA er hægt að nálgast upptöku af fundinum.