Rafverktakar afhenda VMA mæla fyrir rafiðngreinar
Þegar Verkmenntaskólinn á Akureyri, VMA, útskrifaði 27 sveina í rafiðngreinum við hátíðlega athöfn í Hofi föstudaginn 20. september sl. afhentu rafverktakar skólanum gjöf í tilefni þess að Samtök rafverktaka eru 75 ára og VMA 40 ára. Það var Aðalsteinn Þór Arnarson, formaður Félags löggiltra rafverktaka á Norðurlandi og stjórnarmaður í Samtökum rafverktaka, sem afhenti skólanum gjöfina sem eru tíu vandaðir mælar af gerðinni Fluke 177 sem koma til með að vera notaðir við kennslu í rafiðngreinum. Björn Hreinsson, kennari við VMA, tók við gjöfinni fyrir hönd VMA.
Við athöfnina óskaði Aðalsteinn nýsveinum til hamingju með áfangann og rifjaði upp þegar hann stóð í sömu sporum og þau gera nú. Þá afhenti hann Bergi Líndal Guðmundssyni viðurkenningu fyrir besta samanlagðan árangur í bóklegu og verklegu sveinsprófi. VMA útskrifaði að þessu sinni 23 rafvirkja og 4 rafveituvirkja.
Björn Hreinsson og Aðalsteinn Þór Arnarson.
Aðalsteinn Þór Arnarson.
Aðalsteinn Þór Arnarson og Bergur Líndal Guðmundsson.