Fréttasafn



4. des. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Menntun Samtök rafverktaka Starfsumhverfi

Rafverktakar lykilaðilar í orku- og tæknimálum Evrópu

Samtök rafverktaka, Sart, eru aðilar að EuropeON sem eru heildarsamtök rafverktaka í Evrópu. Í nýrri skýrslu EuropeON um stöðu rafiðnaðarins í Evrópu kemur fram að rafverktakar séu lykilaðilar í að mæta breyttum þörfum Evrópu í orku- og tæknimálum, með víðtæk áhrif á efnahag, samfélag og umhverfi. Greinin sé mjög fjölbreytt og nái frá litlum einyrkjum yfir í alþjóðleg stórfyrirtæki. Einnig kemur fram að rafverktakar séu lykilaðilar í því að umbreyta Evrópu í sjálfbært og stafrænt samfélag. Þeir mæti fjölbreyttum áskorunum með nýsköpun og séu ómissandi fyrir framtíðarhagsmuni Evrópu í loftslagsmálum, orkuöryggi og félagslegum framförum. Hins vegar sé nauðsynlegt að stjórnvöld og atvinnugreinin vinni saman að því að skapa skilyrði fyrir frekari vöxt og nýsköpun innan greinarinnar

Í skýrslunni kemur fram að um sé að ræða 2,7 milljónir starfsmanna í 420.000 fyrirtækjum í Evrópu. Heildarárstekjur nemi 300 milljörðum evra. Hátt í 70% fyrirtækja séu smáfyrirtæki með færri en 10 starfsmenn.

Skortur á starfsfólki stór áskorun

Hvað varðar þekkingu og menntun kemur fram að rafverktakar veiti víðtæka þjálfun, þar með talið ítarlegt vinnustaðanám. Skortur á starfsfólki sé þó stór áskorun. Í rafiðnaði er mikil áhersla lögð á endur- og símenntun vegna örra tækniframfara. Lykilhlutverk rafverktaka hefur verið skilgreint með eftirfarandi hætti:

  1. Loftslagsmál og sjálfbærni Rafverktakar eru burðarás í orkuskiptum, þar sem þeir innleiða græna tækni eins og sólarrafhlöður, varmadælur og hleðslustöðvar fyrir rafbíla.  Í Danmörku eru 81% af kolefnislosunarmarkmiðum 2030 háð störfum rafverktaka. Í Þýskalandi árið 2023 tóku rafverktakar þátt í uppsetningu á 550.000 sólarrafhlöðum, 70.000 hitadælum og 442.000 hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
  2. Orkuöryggi og sjálfstæði Rafverktakar styðja við aukið orkuöryggi Evrópu með því að setja upp sjálfbæra orkuinnviði og draga úr þörfinni á innfluttu orku í formi jarðefnaeldsneytis. Verkefni eins og Onshore Power Supply (OPS) í Barcelona-skipahöfn sýna hvernig þeir stuðla að rafvæðingu sjóflutninga.
  3. Stafrænar lausnir og netöryggi Rafverktakar veita lausnir fyrir stafrænar umbreytingar með uppsetning snjalllausna fyrir heimili og fyrirtæki þar sem netöryggi er lykilatriði í nýjustu tækniuppfærslum.
  4. Öryggi og viðhald 132 milljónir bygginga í Evrópu hafa úrelt rafkerfi. Þetta eykur hættu á slysum og orkunýtingarleysi. Rafverktakar tryggja örugga innleiðingu nýrrar tækni með ströngum öryggisstöðlum.
  5. Félagsleg ábyrgð Rafverktakar hafa tekið þátt í verkefnum sem styðja við samfélög, eins og að laga fjarskiptakerfi í kjölfar náttúruhamfara á Íslandi og veita sjálfbærar lausnir á afskekktum eyjum eins og Chalki í Grikklandi.

Starfsmannaskortur, skammtímahugsun, gömul kerfi og kynjaskekkja helstu áskoranir

Í skýrslunni kemur fram að helstu áskoranir sem greinin standi frammi fyrir séu eftirtaldar:

  1. Starfsmannaskortur: Þörf á hæfu starfsfólki er brýn. Í Þýskalandi vantar 20% fleiri starfsmenn en starfandi eru í greininni í dag. Meðalaldur rafverktaka í Evrópu er hár, og að laða ungt fólk til greinarinnar er áskorun.
  2. Stöðugleiki í stefnumótun: Breytilegar stefnur og skammtímahugsun í stjórnsýslu hindra þróun greinarinnar.
  3. Raforkukerfi undir álagi: Gamalt og oft á tíðum úrelt flutnings- og dreifikerfi eiga erfitt með að takast á við aukna eftirspurn eftir rafvæðingu.
  4. Kynjaskekkja í greininni: Konur eru aðeins 2-3% af starfsfólki rafverktaka í mörgum Evrópulöndum.

Tillögur til lausna 

Í skýrslunni eru lagðar fram eftirfarandi tillögur til lausna: 

  1. Langtíma stefnumótun í rafvæðingu: Setja þarf bindandi markmið um að auka hlut rafmagns í orkunotkun upp í 35% fyrir 2030. Tryggja fyrirsjáanleika í hvatakerfum og einfalda stjórnsýslu.
  2. Efling tæknimenntunar: Fjárfesta í umfangsmiklum kynningarátökum fyrir starfsnám og tæknigreinar. Styðja við þjálfun í nýrri tækni eins og snjallkerfum og grænum lausnum.
  3. Leggja áherslu á innviði og netöryggi: Styrkja tengingu rafverktaka við verkefni á sviði net- og rafmagnsöryggis.
  4. Samstarf um staðbundnar lausnir: Styðja við smærri fyrirtæki og tryggja að þau hafi aðgang að styrkjum og ráðgjöf.


Hér er hægt að nálgast skýrslu EuropeON.