Fréttasafn



12. jún. 2015 Lögfræðileg málefni

Rammskökk samkeppnisstaða

Samtök iðnaðarins átelja þá ákvörðun Framkvæmdasýslu ríkisins, f.h. Fjarðarbyggðar, að velja Náttúrustofu Vestfjarða sem einn af fjórum bjóðendum í lokuðu útboði um umhverfismat vegna ofanflóðavarna á Norðfirði. Náttúrustofa Vestfjarða er á föstum fjárlögum hjá íslenska ríkinu og hefur jafnframt eftirlitshlutverk með höndum. Þátttaka þeirra í opinberu útboði skapar að mati SI tortryggni um að ójafnræði ríki á meðal bjóðenda, sér í lagi þar sem aðrir bjóðendur í verkið starfa að öllu leyti á almennum samkeppnismarkaði.
 
Samtök iðnaðarins vilja hvetja til þess að opinberir aðilar hafi hagræðingar- og samkeppniskröfur íslensks réttar að leiðarljósi við kaup á vöru og þjónustu í landinu.
 
Stefna stjórnvalda er skýr í þessum málaflokki enda eru sameiginlegir hagsmunir allra að frjáls samkeppni og hvati til hagræðingar fari saman. Það eykur hagvöxt og stuðlar að heilbrigðum viðskiptaháttum hér á landi. Tilgangur með reglum um opinber innkaup er m.a. að lækka verð, auka á gegnsæi og jafnræði á markaði sem og skapa tækifæri til nýsköpunar og nýrra viðskiptatækifæra.
 
Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur SI segir að þegar svona standi á verði að gera þá kröfu að opinber aðili sýni með skýrum hætti fram á að sá hluti rekstrarins sem útboðið tekur til sé fjárhagslega aðskilinn opinberum hluta stofnunarinnar. „Sé þess ekki gætt teljum við að framangreindum markmiðum laga verði ekki náð enda getur niðurgreiðsla íslenska ríkisins og sveitarfélaga á tilboðum opinberra aðila aldrei samræmst hagræðingar- og samkeppniskröfum íslensks réttar.“