Rangfærslum formanns Félags pípulagningameistara vísað á bug
„Samtök iðnaðarins hafa unnið ötullega að framþróun íslenska meistarakerfisins í samráði við félagsmenn, stjórnvöld og hagaðila. Lögð hefur verið áhersla á að meistarakerfið byggi á traustum grunni menntunar og hæfni með öryggis- og gæðakröfur í fyrirrúmi og því koma þessi ummæli okkur mjög á óvart,“ segir Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, í frétt mbl.is um þau ummæli Böðvars Inga Guðbjartssonar, formanns Félags pípulagningameistara, í helgarútgáfu Morgunblaðsins að félag hans sé „eina fagfélagið sem er að reyna að verja meistarakerfið á meðan öll hin fagfélögin og Samtök iðnaðarins sitja hjá“.
Ummælin gegn betri vitund formannsins og óvirðing gagnvart öðrum meistarafélögum
Lilja segir í frétt mbl.is að ummælin séu röng og gegn betri vitund formannsins. „Þá eru þau óvirðing gagnvart hinum meistarafélögunum sem hafa lagt mikinn metnað í að tala fyrir framförum kerfisins og hafa gæði þess í fyrirrúmi, því skjóta ummæli um að SI og fagfélög sitji hjá skökku við en SI og meistarafélögin hafa verið í samvinnu við hagaðila og stjórnvöld til að tryggja að framkvæmd á mati á erlendu iðnmeistaranámi sé í samræmi við iðnlöggjöf. Mikilvægt er að slíkt sé unnið með yfirvegun og málefnalegum hætti.“ Hún segir í fréttinni það vera sérstakt að einstakt fagfélag telji sig knúið til þess að fara fram með þessum hætti, það er að segja gegn SI og þeim meistarafélögum sem eru innan raða samtakanna. Ummælin séu jafnframt óvirðing við fjölmarga iðnmeistara sem hafi um árabili beitt sér mjög fyrir faglegum vinnubrögðum hér á landi.
Tryggja að framkvæmd á mati samræmis iðnlöggjöf, kröfum um öryggi og neytendavernd
Þá segir Lilja í fréttinni að á síðustu árum hafa einstaklingar með iðnmenntun erlendis frá leitað til íslenskra stjórnvalda til að fá réttindi sín metin hérlendis. „Það er eðlilegur liður í fólksfjölgun hérlendis og hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til þess að leggja mat á slíkar umsóknir í samræmi við EES-samninginn að virtum íslenskum lögum um handiðnað og lögverndun iðngreina.“ Hún segir að strax haustið 2023 hafi Samtök iðnaðarins vakið máls á því að breytingar á orðalagi reglugerðar um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn væri óskýrt og að vanda þyrfti betur til verka. „SI hafa jafnframt vakið athygli á því við stjórnvöld að íslenskt meistarabréf í löggiltri iðngrein veiti víðtæk réttindi og gerir kröfur um sértæka kunnáttu á ýmsum öryggisatriðum. Viðbrögð SI vegna stöðunnar hafa verið fundir með félagsmönnum, stjórnvöldum og hagaðilum og unnið hefur verið að því að tryggja að framkvæmd á mati samræmist iðnlöggjöf og kröfum um öryggi og neytendavernd.“
SI leggja áherslu á bætt verklag á mati á erlendu iðnmeistaranámi
Í fréttinni kemur fram að SI hafi lagt áherslu á að óbreytt framkvæmd gæti leitt af sér mismunun á kröfum sem gerðar séu til iðnmeistaranema sem hljóti meistarabréf hérlendis ásamt því að ganga í berhögg við öryggis- og neytendasjónarmið. „Síðan þá hafa SI lagt áherslu á bætt verklag á mati á erlendu iðnmeistaranámi í samráði við hagaðila og stjórnvöld með það að markmiði að tryggja að framkvæmdin verði í samræmi við gildandi regluverk til framtíðar. Kjarni málsins er að meistarabréf gefur víðtæk réttindi og hérlendis verður að vera til staðar skilvirkt kerfi þegar einstaklingar með erlent iðnmeistaranám óska eftir mati á réttindum og reynslu sinni. Þá er enn fremur mikilvægt að til staðar séu viðeigandi ferlar fyrir umsækjendur sem þurfa að bæta við sig námi eða hæfni til þess að geta fengið útgefið íslenskt meistarabréf í löggiltri iðngrein. Þessu er verulega ábótavant eins og staðan er í dag.“
Mikilvægt að allir hagaðilar vinni að bættri umgjörð í góðu samráði
Lilja segir jafnframt í fréttinni það vera ljóst að reyna muni í auknum mæli á sambærileg mál í nánustu framtíð og því mikilvægt að allir hagaðilar vinni að bættri umgjörð í góðu samráði. „SI og meistarafélög innan þeirra raða leggja áherslu á staðið sé faglega að framkvæmd mats á erlendu iðnmeistaranámi og telja afar brýnt að stjórnvöld bregðist við annmörkum í framkvæmd í kjölfar innleiðingar á reglugerð um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hérlendis.“
Morgunblaðið / mbl.is, 10. nóvember 2025.


