Fréttasafn



27. mar. 2024 Almennar fréttir Félag íslenskra snyrtifræðinga Iðnaður og hugverk

Rannsókn á snyrtistofum sem fjölgar ört

Rætt er við Agnesi Ósk Guðjónsdóttur, fyrrum formann Félags íslenskra snyrtifræðinga, í Kastljósi um rannsóknir lögreglu á mögulegu mansali á snyrtistofum sem hefur fjölgað ört og eru meðal annars í Kringlunni og Smáralindinni. Í umfjölluninni kemur fram að margar snyrtistofanna séu í eigu víetnamskra ríkisborgara og að margir starfsmannanna séu með dvalarleyfi hér á landi sem sérfræðingar. Einnig kom fram að verðmunur á snyrtistofum er töluverður. 

Félag íslenskra snyrtifræðinga hefur gert athugasemdir við starfsemina meðal annars vegna þess að starf snyrtifræðinga er lögverndað á Íslandi. Þær eru ekki sáttar við að það sé verið að ganga inn á þeirra grein. „Við getum ekki keppt við fólk sem er með reikningsdæmi sem gengur ekki upp í rekstri,“ segir Agnes.  

Agnes bendir á að snyrtistofur sem eru ekki með fagfólk séu með 40-50% lægri verðskrá. Hún segir að það sé ekki hægt að keppa við það miðað við kostnað við rekstur snyrtistofu og nefnir virðisaukaskatt, launakostnað, efniskostnað, húsaleigu, hita og rafmagn. „Þetta er bara ekki hægt.“ Agnes segir að eftirlit hins opinbera sé ekkert. 

Hér er hægt að horfa á umfjöllun Kastljóss í heild sinni.

RÚV, 26. mars 2024.