Fréttasafn



9. nóv. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Raunhæft að á Íslandi verði til fleiri einhyrningar

Endurskoða þarf skattalega meðferð kauprétta starfsfólks í nýsköpunar- og hugverkafyrirtækjum. Viðmiðin eru of þröng og henta ekki þorra fyrirtækja í hugverkaiðnaði, segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í samtali við Innherja á Vísi. Hún segir að í fyrsta sinn í hagsögu Íslands sé „raunhæft að hér verði til ekki eitt eða tvö heldur fjölmörg fyrirtæki“ sem séu einhyrningar. „Auknir skattahvatar vegna rannsókna- og þróunar hafa leyst sterka krafta úr læðingi sem gera það raunhæfa sviðsmynd að á Íslandi verði til fleiri einhyrningar.“

Á Innherja segir að einhyrningar séu nýsköpunarfyrirtæki sem hafi á örskömmum tíma farið frá því að vera sproti í að vera metið á yfir milljarð Bandaríkjadali. Kerecis hafi verið fyrsti einhyrningur Íslandssögunnar þegar það var selt til Coloplast fyrir 1,3 milljarða dala.

„Skattaleg meðferð kauprétta í sprotafyrirtækjum hefur nýlega verið endurskoðuð með lagabreytingu og er nú þannig að starfsfólk greiðir fjármagnstekjuskatt af mögulegum hagnaði við sölu á bréfunum en ekki tekjuskatt við nýtingu kauprétta eins og almenna reglan er. Þetta er skref í rétta átt en viðmiðin eru því miður enn of þröng og henta ekki þorra fyrirtækja í hugverkaiðnaði. Svíþjóð og Eystrarsaltslöndin ganga mun lengra en við í þessum efnu,“ segir Sigríður meðal annars í samtalinu.

Á vef Vísis er hægt að nálgast umfjöllun Innherja. 

Innherji á Vísi, 9. nóvember 2023.