Fréttasafn26. ágú. 2021 Almennar fréttir Mannvirki

Rb-blöð nú aðgengileg á vef HMS

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, hefur opnað fyrir aðgengi að öllum blöðum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, svokölluð Rb-blöð, nú þegar útgáfa þeirra hefur færst frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands yfir til HMS. Hingað til hafa flest blöðin einungis verið aðgengileg í áskrift. Hér er hægt að nálgast eldri útgáfur á heimasíðu HMS

Á vef HMS segir að núverandi framsetning sé aðeins tímabundin og unnið sé að því að setja blöðin fram með skýrari og aðgengilegri hætti. Fyrsta Rb-blaðið var fyrst gefið út árið 1973. 

Í blöðunum er fjallað um helstu málefni sem snerta byggingariðnaðinn og niðurstöður nýjustu rannsókna sem geta haft áhrif á byggingaraðferðir. Til að mynda er þar fjallað um rannsóknir á rakaskemmdum og ýmsum ábendingum komið til byggingaraðila byggt á reynslu sem orðið hefur til hérlendis. Blöðin eru mikið notuð af fagmönnum í byggingariðnaði og húseigendum til viðmiðunar um viðhald og gerð mannvirkja.