Reglugerðarbreytingar í prent- og miðlunargreinum
Breyting hefur verið gerð á reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar, sem varðar prent- og miðlunargreinar. Með reglugerðarbreytingunni falla iðngreinarnar bókband og prentun brott sem sjálfstæðar greinar undir upptalningu upplýsinga- og fjölmiðlagreina. Í staðinn er prentsmíði skilgreind sem sameinuð iðngrein, sem nær nú einnig til bókbands og prentunar.
Reglugerðin er sett með stoð í 3. mgr. 13. gr. laga um handiðnað, nr. 42/1978, og tók þegar gildi. Hún var birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. nóvember 2025.
Frumkvæði að þessari breytingu má rekja til samstarfsyfirlýsingar sem undirrituð var í desember 2024, þar sem markmiðið var að vinna í sameiningu að þróun og breytingum á námi í prent- og miðlunargreinum. Að yfirlýsingunni stóðu Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, Georg Páll Skúlason, formaður GRAFÍU, og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, stjórnarformaður Prentmet Odda og fulltrúi Samtaka iðnaðarins í starfsgreinaráði.
Markmið breytinganna er að fjölga nemendum í prent- og miðlunargreinum, auka fagþekkingu og mæta breyttum þörfum atvinnulífsins. Stefnt er að því að sameina allar faggreinar prent- og miðlunargreina undir einu starfsheiti, prentsmíði (grafískur miðlari). Nemendur munu fá sameiginlegan grunn og velja síðan áherslu, svo sem prentun, prentsmíði eða bókband, með frekari þjálfun á vinnustað. Með sveinsprófi í faginu öðlast þeir réttindi til starfa í grafískum greinum og tækifæri til sérhæfingar á því sviði sem þeir kjósa.
Gert er ráð fyrir að ný námsskrá liggi fyrir haustið 2026. Reglugerðarbreytingin markar mikilvægt skref í þessari vegferð og styrkir lagalegan og faglegan grundvöll fyrir sameinað og framtíðarmiðað nám í prent- og miðlunargreinum.
Á myndinni hér fyrir ofan eru Hildur Ingvarsdóttir, Georg Páll Skúlason og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir þegar þau skrifuðu undir yfirlýsingu um að vinna í sameiningu að þróun og breytingum á námi í prent- og miðlunargreinum í desember 2024.

