Fréttasafn



24. jan. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Regluverk og eftirlit hefur aukist mikið - ný greining SI

Í nýrri greiningu SI kemur fram að lög og regluverk um starfsemi iðnfyrirtækja hafa orðið meira íþyngjandi á síðustu árum samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins. Könnunin var lögð fyrir stjórnendur iðnfyrirtækja innan raða Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar segja 77% stjórnenda að lög, regluverk og eftirlit um starfsemi þeirra fyrirtækja hafi aukist á síðustu 10 árum. Ekki nema 2% segja að það hafi minnkað. Einnig kemur fram í könnuninni að mikilvægt sé að einfalda regluverk um rekstur iðnfyrirtækja. Samkvæmt niðurstöðunum segja 65% stjórnenda iðnfyrirtækja að það skipti miklu fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að reglugerðarumhverfi verði einfaldað. Aðeins 14% segja það skipta litlu eða alls engu máli.

Mynd_regluverk

Í greiningunni segir að ljóst sé af niðurstöðum könnunarinnar að opinberar eftirlitsstofnanir standi sig misjafnlega vel í sínu hlutverki. Þannig segja 43% að framkvæmd eftirlits hjá Skipulagsstofnun sé slæm og ekki nema nær 18% að hún sé góð. Svipuð staða er á Samkeppniseftirlitinu og Embætti byggingafulltrúa. Segja 37% að framkvæmd eftirlits hjá Samkeppniseftirlitinu sé slæm og ekki nema 19% að hún sé góð. Einnig segja 35% stjórnenda iðnfyrirtækja að framkvæmd eftirlits Embættis byggingafulltrúa sé slæm og 28% að hún sé góð. Fæstir telja að framkvæmd eftirlits Vinnueftirlitsins sé slæm eða 12%. 49% telja framkvæmdina góða.

Mynd_regluverk2

Hér er hægt að nálgast greiningu SI.