Rekstraráfallið hjá Norðuráli hefur víðtæk áhrif
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í Viðskiptablaðinu að rekstrarstöðvun á tveimur þriðju hluta álframleiðslunnar hjá Norðuráli á Grundartanga vera mikið áfall og að rekstraráfallið bætist við nú þegar kólnandi hagkerfi en starfsfólki í iðnaði hafi farið fækkandi samhliða samdrætti í veltu milli ára.Hann segir Norðurál vera eitt stærsta útflutningsfyrirtæki þjóðarinnar. „Það mun óhjákvæmilega hafa talsverð áhrif þegar tveir þriðju hluti framleiðslunar dettur út. Hugur okkar er hjá starfsfólki og stjórnendum Norðuráls á þessum krefjandi tímum en það má ekki gleyma því að það eru fjölmörg fyrirtæki sem eiga í viðskiptum við Norðurál sem horfa fram á samdrátt.“
Þá segir Sigurður að rekstraráfallið hjá Norðuráli hafi áhrif víðtæk áhrif, bæði á stærri og minni fyrirtæki í landinu. „Þetta eru vélsmiðjur, þetta eru rafvirkjar en svo mun þetta hafa mikil áhrif á orkufyrirtækin sem verða fyrir miklu höggi.“
Á vef Viðskiptablaðsins er hægt að lesa fréttina í heild sinni.
Viðskiptablaðið, 23. október 2025.