Fréttasafn25. mar. 2020 Almennar fréttir

Rekstrarráðgjöf Litla Íslands í boði fyrir félagsmenn SI

Vegna þeirra efnahagslegu áskorana sem viðskiptalífið stendur nú frammi fyrir vegna COVID-19 býður Litla Ísland upp á tímabundna rekstraráðgjöf til félagsmanna Samtaka iðnaðarins. Rekstrarsérfræðingur Litla Íslands er Ingibjörg Björnsdóttir, lögmaður og viðurkenndur bókari, en hún hefur áralanga reynslu af fyrirtækjarekstri og rekstrarráðgjöf. Þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að ræða við rekstrarsérfræðing Litla Íslands geta pantað símatíma eða rekstrarviðtal hér, hægt er að bóka ýmist 15 mínútna símatíma eða klukkustundarlangt viðtal. Athugið að rekstrarráðgjöf Litla Íslands er eingöngu í boði fyrir fyrirtæki sem eru aðilar að þeim samtökum sem að verkefninu standa sem eru auk Samtaka iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu

Si_framleidsluthing_2020-59Hvað felst í rekstrarráðgjöf Litla Íslands?

1. Í rekstrarviðtali er farið almennt yfir helstu þætti í rekstrinum og hvar betur megi fara. Ef rekstrargrunnur er almennt góður en styrkja mætti hann enn frekar er félagsmanni bent á hvar hann getur leitað frekari aðstoðar við uppbyggingu á sterkum rekstrargrunni. Því sterkari sem rekstrargrunnur fyrirtækja er því meiri líkur eru á að yfirstíga tímabundinn rekstrarvanda.

2. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er veikur og illa undir það búinn að takast á við áskoranir í atvinnulífinu og erfið rekstrarskilyrði getur félagsmaður fengið aðstoð við að greina veikleika í rekstri sem og leiðir til úrbóta með rekstrarúttekt. Í framhaldi er félagsmanni bent á hvar hann geti leitað frekari aðstoðar við endurskipulagningu.

3. Ef í rekstrarviðtali kemur í ljós að rekstrargrunnur er að bresta getur félagsmaður fengið neyðaraðstoð sem felst m.a. í greiningu á greiðsluerfiðleikum sem og úrræðum til að takast á við aðkallandi greiðsluvanda. Ef rekstur er lífvænlegur fær félagsmaður ráðleggingar um úrræði við greiðsluvanda sem og fyrstu hjálp við að fyrirbyggja frekari rekstrarvanda eða gjaldþrot. Í aðstoð felst m.a. samskipti við kröfuhafa og viðskiptabanka þar til mesta hættan er liðin hjá og félagsmaður á tök á að leita frekari aðstoðar við fjárhagslega uppbyggingu.

4. Ef rekstrarviðtal leiðir í ljós brostinn rekstrargrunn og gjaldþrot er óumflýjanlegt fær félagsmaður ráðleggingar á sviði skiptaréttar svo gjaldþrot fari fram í samræmi við reglur gjaldþrotaskiptalaga.