Fréttasafn



7. feb. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Rétti tíminn fyrir framkvæmdir

Ástand innviða á Íslandi er nú óásættanlegt. Uppsöfnuð viðhaldsþörf nemur á fjórða hundrað milljarða króna samkvæmt skýrslu sem Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga gáfu út síðastliðið haust. Of lítið viðhald undanfarinna ára er farið að bitna á gæðum og öryggi. Ljóst er að bæta þarf verulega í fjárframlög til að vinna á vandanum. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdstjóri SI, í grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að það sé ekki í boði að bíða lengur. „Það er ekki einungis nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir heldur er núna rétti tíminn fyrir framkvæmdir samhliða því að það hægir á vexti hagkerfisins. Við hljótum því að sjá fram á framkvæmdaárið 2019.“

Í grein Sigurðar kemur fram að opinberar framkvæmdir séu að minnka milli ára en á nýlegu útboðsþingi Samtaka iðnaðarins kom fram að áformaðar opinberar framkvæmdir eru tæplega 80 milljarðar króna í ár í samanburði við 90 milljarða árið 2017 og um 100 milljarða árið 2016. Þá nefnir hann að sé horft til síðustu 50 ára sé fjárfesting í þjóðvegakerfinu nú í sögulegu lágmarki sem hlutfall af landsframleiðslu. „Framlög til viðhalds og þjónustu eru einnig nokkuð undir hálfrar aldar meðaltali. Eitt hundrað milljarða þarf á næstu fimm árum til að koma þjóðvegakerfinu í ásættanlegt horf. Á þessu ári rétt næst að halda í horfinu og ekki eru fjármunir til að vinna á uppsöfnuðum vanda.“

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.