Fréttasafn



26. okt. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Rétti tíminn til að huga að fjárfestingum í innviðum

Í fréttum Stöðvar 2 í gær er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um hvort nota eigi arðgreiðslur bankanna til að fjárfesta í innviðum í stað þess að greiða niður skuldir ríkisins. Í fréttinni kemur fram að hagfræðingur SI segi að nú sé rétti tíminn til að huga að fjárfestingum í innviðum þar sem spennan í hagkerfinu hafi minnkað. 

Í frétt Þorbjörns Þórðarsonar kemur fram að arðgreiðslur bankanna til ríkisins geta numið 120 milljörðum samkvæmt upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins. En um er að ræða hlut ríkisins í bönkunum umfram lágmarks eigið fé. 

Í fréttinni kemur fram að með innviðum sé átt við vegi, brýr, flutningskerfi raforku og fasteignir ríkisins eins og skólar og sjúkrahús, svo dæmi séu nefnd. Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins var bent á að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða á Íslandi næmi 372 milljörðum króna. 

„Tímabilið framundan er þannig, miðað við spár að minnsta kosti, að hér dragi úr hagvexti og það dragi úr þeirri spennu sem hér hefur verið í íslensku efnahagslífi undanfarið. Það aukist hérna atvinnuleysi og það skapist þannig að vissu leyti svigrúm til þess að nýta þá framleiðsluþætti sem losna til þess einmitt að fara í verkefni eins og þetta.“

Þorbjörn spurði Ingólf hvort það væri ábyrg hagstjórn að nota arðgreiðslur úr bankakerfinu til að fjárfesta í innviðum í stað þess að greiða niður skuldir ríkisins? „Þú getur hugsað innviði sem eign líkt og þú ert með þessa eign í bönkunum og getur þá spurt á móti, er það ábyrgt að láta þá eign rýrna að verðgildi og gæðum á sama tíma og þú ert með ónotað eigið fé bundið í bönkunum?“

Hægt er að horfa á fréttina í heild sinni á Vísi