Fréttasafn



27. jan. 2021 Almennar fréttir Mannvirki

Rétti tíminn til að ráðast í enn meiri framkvæmdir núna

Verkefnin eru næg og rétti tíminn til að ráðast í enn meiri framkvæmdir er núna. Fjöldi álitlegra aðkallandi verkefna eru fullhönnuð og bíða þess eins að verða sett í gang. Til að flýta þessum verkefnum enn frekar þarf að markvisst að hvetja til og opna fyrir þátttöku einkafjárfesta, til að mynda lífeyrissjóðanna, inn í arðbærar innviðaframkvæmdir og koma því handbæra lausafé sem nú liggur inn á lágvaxta reikningum sem fyrst í vinnu, öllum hlutaðeigandi til heilla. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, í ávarpi sínu á Útboðsþingi SI sem fram fór í morgun. 

Hér fer ávarp Árna sem hann flutti á Útboðsþingi SI 2021 í heild sinni:

Ég býð ykkur góðan dag héðan úr Húsi atvinnulífsins á þessum napra janúarmorgni. Verið velkomin á Útboðsþing Samtaka iðnaðarins 2021, sem haldið er í samstarfi við Félag vinnuvélaeigenda og Mannvirki – félag verktaka. Hér í dag verða kynntar áformaðar fjárfestingar og verklegar framkvæmdir á vegum stærstu aðilanna á opinberum markaði. Við færum þeim öllum góðar þakkir fyrir þátttökuna. Eins og vænta mátti er fyrirkomulag þingsins með öðru sniði en áður vegna samkomutakmarkana, en það er von okkar að stafrænt þing verði ekki síður upplýsandi en hin fyrri þing.

Þessi viðburður skipar mikilvægan sess í starfi samtakanna og hefur gert um margra ára bil en fyrsta þingið af þessum toga var haldið árið 1997. Útboðsþingin hafa verið vettvangur fjölmargra félagsmanna í Samtökum iðnaðarins til að koma saman og velta vöngum um komandi framkvæmdaár og um leið gera upp liðið ár. Hvað er í pípunum, hvaða boðuðu verkefni hafa orðið að veruleika og hvaða verkefni bíða enn – og hvað veldur?

Eins og þið flest vitið, sýnir sagan okkur að nokkur munur getur verið á boðuðum framkvæmdum og þeim sem ráðist er í á ári hverju. Boðaðar framkvæmdir segja því ekki alla söguna hvað varðar framkvæmdir á árinu og áætluð útboð á árinu eru verk sem klárast ekki endilega innan ársins. Auk þess verður stundum ekki af útboðum eða þau frestast af ýmsum ástæðum. Þetta verður allt að hafa í huga þegar við hlýðum á erindi dagsins og leggjumst yfir áætlanirnar.

Lítum því sem snöggvast í baksýnisspegilinn og gerum upp þetta undarlega ár sem nú er að baki. Heildarverðmæti framkvæmda á árinu 2020 var um 29% minna en boðað var á Útboðsþingi SI í upphafi árs 2020. Vegur þar þungt að framkvæmdir Isavia voru ekki nema tæpar 200 milljónir króna í fyrra samanborið við framkvæmdaáætlun upp á 21 milljarð króna. Eins og nærri má geta, hafði heimsfaraldur kórónuveiru þar augljóslega mikil áhrif. Reykjavíkurborg boðaði framkvæmdir fyrir 19,6 milljarða króna á Útboðsþingi SI í fyrra auk þess sem síðar var boðað 2,5 milljarða króna fjárfestingarátak vegna COVID-19. Heildarverðmæti framkvæmda borgarinnar á árinu hljóðaði þó upp á 21,1 milljarð króna sem er einum milljarði minna en áætlanir ársins gerðu ráð fyrir. Framkvæmdir Vegagerðarinnar á síðasta ári voru 7,6 milljörðum króna minni en boðaðar framkvæmdir á Útboðsþingi SI 2020. Þá má nefna að nánast engar framkvæmdir voru á vegum Faxaflóahafna og Orku náttúrunnar á síðasta ári.

Þetta er býsna sláandi á tímum mikils samdráttar í efnahagslífinu. Við þreytumst ekki á að minna á að fjárfesting í dag sé hagvöxtur á morgun. Þar spila innviðir landsins lykilhlutverk og okkar skilaboð verða áfram skýr: að með fjárfestingum í innviðum sé fjárfest í lífsgæðum og hagvexti framtíðarinnar.

Mikil uppsöfnuð þörf er fyrir innviðaframkvæmdir víða og henta því verklegar framkvæmdir hins opinbera vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf, sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda um þessar mundir. Það eina sem bætir lífskjör okkar er aukin verðmætasköpun. Við þurfum áfram markvissar og varanlegar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og leggja grunninn að sterkara efnahagslífi, svo okkur verði unnt að vinna okkur hratt og vel út úr kreppunni.

Verkefnin eru næg og rétti tíminn til að ráðast í enn meiri framkvæmdir er núna. Fjöldi álitlegra aðkallandi verkefna eru fullhönnuð og bíða þess eins að verða sett í gang. Til að flýta þessum verkefnum enn frekar þarf að markvisst að hvetja til og opna fyrir þátttöku einkafjárfesta, til að mynda lífeyrissjóðanna, inn í arðbærar innviðaframkvæmdir og koma því handbæra lausafé sem nú liggur inn á lágvaxta reikningum sem fyrst í vinnu, öllum hlutaðeigandi til heilla.

Þau skilaboð sem koma nú frá samgönguráðherra og lesa mátti í fréttamiðlum í gær, um framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í gegnum samstarfsverkefni hins opinbera og einkageirans, eða svokölluð PPP verkefni, eru afar gleðileg. Eru þar nefnd til sögunnar hin langþráða Sundabraut, hringvegur norðaustan Sel­foss og brú yfir Ölfusá, hringvegur um Horna­fjarðarfljót, Ax­ar­veg­ur, tvö­föld­un Hval­fjarðarganga og hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reyn­is­fjall.

Í næsta mánuði munum við hjá Samtökum iðnaðarins gefa út og kynna nýja skýrslu um ástand innviða og framtíðarhorfur, sem verður afar áhugavert að bera saman við stöðu mála eins og hún blasti við okkur árið 2017. Engum blöðum var að fletta að innviðir landsins höfðu verið fjársveltir um árabil og skuldum þannig velt yfir á framtíðina. Uppsöfnuð viðhaldsþörf fyrir utan nýframkvæmdir var metin 372 milljarðar króna, mest í vegakerfinu og flutningskerfi raforku. Frá þeim tíma hafa þó stjórnvöld tekið við sér og forgangsraðað í þágu innviðauppbyggingar en stóra spurningin er hvort nóg er að gert. Ég tel mig vita svarið en meira um það í næsta mánuði.

Í millitíðinni skulum við hlýða á áform þeirra aðila sem eru á mælendaskránni hér í dag um verklegar framkvæmdir sem eru í farvatninu og komast vonandi sem flestar á rekspöl á næstu vikum og mánuðum. Ég þakka ykkur fyrir áhugann og þátttökuna og vona að Útboðsþingið nýtist vel í ykkar mikilvægu verkefnum.

Si_utbodsfundur_2021-2Árni Sigurjónsson, formaður SI, setti rafrænt Útboðsþing SI 2021 frá Húsi atvinnulífsins.