Fréttasafn



3. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Rétti tíminn til uppbyggingar vegakerfisins

Með fjárfestingu í vegakerfinu er lagður nauðsynlegur grunnur að framtíðarvexti og stutt við núverandi verðmætasköpun. Nú er rétti tíminn til uppbyggingar. Seðlabankinn spáir hægari vexti hagkerfisins á næstu árum. Þar að auki hefur Landsvirkjun boðað framkvæmdahlé næstu árin og útlit er fyrir hægari uppbyggingu í ferðaþjónustu eftir umtalsverða og nauðsynlega fjárfestingu undanfarinna ára. Þar með losnar um framleiðsluþætti sem hægt er að nýta til uppbyggingar vegakerfisins. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni sem birtist í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Vegi í forgang er yfirskrift greinarinnar.

Í greininni segir Sigurður að lyfta þurfi grettistaki á næstu árum til að koma þessum mikilvægu innviðum í ásættanlegt horf. Of lengi hafi löngu tímabæru viðhaldi og ný-framkvæmdum vega verið slegið á frest og  með því að forgangsraða í þágu innviðauppbyggingar sé fjárfest í öryggi, auknum lífsgæðum og hagvexti framtíðarinnar. 

Samgönguinnviðir spila stórt hlutverk á Íslandi

Sigurður segir í greininni að vísbendingar séu um að samgönguinnviðir spili stærra hlutverk í verðmætasköpun íslenska hagkerfisins en gengur og gerist. Þeir hafi tengt strjálar byggðir og Ísland við umheiminn og miðlað verðmætum hvaðanæva til endanlegra notenda. „Aðstæður okkar sem fámenn þjóð í stóru landi leggja okkur línurnar og Íslendingar eiga samgönguinnviðum margt að þakka. Þetta endurspeglast í fjárfestingu íslenska hagkerfisins í samgönguinnviðum sem er mjög mikil í alþjóðlegum samanburði og fjallað er um í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins, Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfni.“ 

Með greininni fylgir mynd sem sýnir samgönguinnviði sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í nokkrum löndum:

Vegi-i-forgang

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.