Fréttasafn29. apr. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Reykjavíkurborg hætti rekstri malbikunarstöðvar

Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands skora á Reykjavíkurborg að nýta tækifærið og losa sig út úr rekstri Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Önnur fyrirtæki á þessum markaði hafa þekkingu og getu til að sinna þessari mikilvægu þjónustu. Því er engin ástæða til að stærsta sveitarfélag landsins sitji beggja vegna borðsins og sé í beinni og virkri samkeppni við einkaaðila um að framleiða og leggja malbik. Þetta segja Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri VÍ, í grein sinni í Morgunblaðinu með yfirskriftinni Það þarf ekki borg til að reka malbiksstöð.

Í greininni segir að Malbikunarstöðin Höfði hf., sem sé í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og Aflvaka hf. (sem sé svo aftur í eigu Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahafna, sem sömuleiðis séu aðallega í eigu borgarinnar), reki grjótmulningsstöð og tvær malbikunarstöðvar, leggi út malbik og annist hálkueyðingu og snjómokstur. Engin þessara verkefna séu þess eðlis að borgin geti ekki boðið þau út og keypt þjónustu af einkaaðilum og til að gæta allrar sanngirni sé það einmitt það sem hún geri. Hún eigi það bara til að kaupa þjónustuna af sjálfri sér. Þau segja það hafi eðlilega vakið tortryggni enda selji fyrirtækið verktökum efni til að leggja og bjóði svo sjálft í sömu verk og þeir með góðum árangri. 

Þá kemur fram í greininni að þrír einkaaðilar séu nú með starfsleyfi fyrir fullbúnar malbikunarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Colas í Hafnarfirði, Malbikstöðin á Esjumelum og Munck, sem sé með fullbúna stöð í Hafnarfirði sem sé ekki í rekstri vegna verkefnaskorts. Við þessar aðstæður ætli borgin sér að færa tækjabúnað sinn upp á Esjumela fyrir 1,7 milljarða króna lánsfé, að hlið glænýrrar malbiksstöðvar einkaaðila sem kostaði 2,5 milljarða króna að koma upp. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 29. apríl 2021. 

Frettablaðið.is, 29. apríl 2021.