Fréttasafn



9. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Reykjavíkurborg með óraunhæfa mynd af uppbyggingu

Í Morgunblaðinu er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem segir að sú mynd sem formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar dragi upp af uppbyggingu íbúða í borginni sé ekki raunsönn að mati Samtaka iðnaðarins en í Morgunblaðinu í gær kom fram að Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, taldi að stefnt væri að uppbyggingu 1.000 íbúða á ári í Reykjavík til 2040. 

Fækkun íbúða í byggingu í Reykjavík 

Ingólfur segir í frétt Morgunblaðsins að þegar tölur næstu ára séu skoðaðar gangi þessi útreikningur ekki upp. „Það er talsverð fækkun íbúða í byggingu í Reykjavík eða um 9% frá því fyrir ári og það stefnir í að fullbúnum íbúðum sem eru að koma inn á markaðinn í borginni muni fækka á næstunni eða ekki fjölga. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins er nú 47% samdráttur í Reykjavík í íbúðum á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu. Það er meiri samdráttur en mælist á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess á þessum byggingarstigum (41%), þó er samdrátturinn á svæðinu öllu verulegur á þessum byggingarstigum og mikið áhyggjuefni. Reikna má með að þetta muni hafa áhrif til lækkunar á heildarfjölda fullbúinna íbúða sem eru að koma inn á markaðinn í Reykjavík á næstu árum.“  

Lækka spá um fullbúnar íbúðir í Reykjavík

Þá segir Ingólfur að m.a. í þessu ljósi sé SI að lækka spá umtalsvert fyrir fullbúnar íbúðir sem eru að koma inn á markaðinn í Reykjavík á næsta og þarnæsta ári. „Reiknum við nú með 895 íbúðum á næsta ári fullbúnum í borginni í stað 999 áður. Við reiknum með enn meiri fækkun á árinu 2022 en það ár erum við að lækka spá okkar úr 1.009 niður í 778. Það er því bæði þessi ár verið að fara nokkuð undir þær þúsund íbúðir sem Sigurborg segir að sé þeirra stefna.“ 

Lítill hluti íbúða á fyrstu byggingarstigum á leið á almennan markað

Jafnframt bendir Ingólfur á að lítill hluti íbúða á fyrstu byggingarstigum séu á leið á markað. 28% allra íbúða á fyrstu byggingarstigum séu óhagnaðardrifin leigufélög að reisa og af sökklum sé hlutfallið um 90% óhagnaðardrifin leigufélög. 

Morgunblaðið / mbl.is, 9. október 2020.