Fréttasafn



11. maí 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Ríki heims eru að átta sig á mikilvægi iðnaðar

Ríki heims eru að átta sig núna á mikilvægi iðnaðar núna þegar hin alþjóðlega aðfangakeðja hefur rofnað. Við erum vön því að geta fengið aðföng alls staðar að úr heiminum með skömmum fyrirvara en allt í einu er það ekki staðan. Við sjáum að þá fara ríki heims að meta iðnaðinn öðruvísi. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðskiptaþætti Jóns G. Haukssonar á Hringbraut. 

Þegar Jón spyr hann út í ályktun Iðnþings sem send var út eftir rafrænan aðalfund, Iðnþing, Samtaka iðnaðarins í síðustu viku segir Sigurður að þar sé meðal annars vísað í að í þessum hremmingum sem við göngum núna í gegnum þá séu allir eða allavega flest allir að leggja sín lóð á vogarskálarnar. „Ríkið hefur núna komið fram með þrjá aðgerðarpakka, sveitarfélögin ætla að auka fjárfestingar, fjármálakerfið hefur lagt sitt af mörkum og svo framvegis. Fyrirtækin verða auðvitað fyrir stórfelldu tjóni en þess vegna finnst okkur mjög sérstakt að verkalýðshreyfingin skuli ekki ljá máls á neinum aðgerðum af sinni hálfu. Þá er ég að vísa í það að það var launahækkun nú um mánaðarmótin síðustu sem Samtök atvinnulífsins höfðu óskað eftir frestun á.“

Bankarnir eru núna hluti af lausninni

Þegar talið best að hlutverki bankanna segir Sigurðu rað bankarnir munu örugglega lenda í einhverju útlánatapi en staða þeirra sé mjög traust og núna séu bankarnir hluti af lausninni. „Á meðan þeir voru vandamálið 2008. Staða bankakerfisins er sterk. Það hafa verið gríðarlega miklar umbætur á bankakerfinu. Eiginfjárstaðan er miklu miklu sterkari þannig að þeir standa mjög vel og geta vel staðið af sér þennan storm.“

Hugvitið okkar helsta auðlind

Sigurður segir að nýsköpun sé lykilatriði núna og það hafi verið ljóst fyrir COVID að hagkerfið hafði kólnað og óveðursský verið yfir Íslandi í byrjun þessa árs áður en þessar hremmingar dundu yfir. „Þannig að það þurfti að huga að því hvernig verðmætin yrðu til í framtíðinni til að standa undir þeim lífsgæðum sem við þekkjum og viljum hafa. Nú er það orðin enn áleitnari spurning. Við sjáum að við höfum verið að veðja á eina atvinnugrein í einu. Það var fjármálaþjónustan á fyrsta áratug aldarinnar og það var ferðaþjónustan á öðru áratug aldarinnar. Það áhugaverða er reyndar að í kjölfar þeirra beggja varð alþjóðlegt hrun, annars vegar í fjármálaþjónustu 2008 og hins vegar í ferðaþjónustu á þessu ári. Það endaði í höftum í bæði skiptin. Seðlabankinn stýrði höftunum eftir hrunið 2008 og núna er það landlæknir. Núna þegar við horfum fram á þriðja áratuginn þá þurfum við auðvitað að byggja verðmætasköpun núna upp á breiðari grunni og þar þurfum við að horfa til nýsköpunar. Hér á síðasta áratug hafa sannarlega orðið til flottar hugmyndir, flott fyrirtæki og önnur vaxið og dafnað. Við viljum styðja enn frekar við þetta svo við getum uppskorið með öflugra atvinnulífi.“  Hann segir að hugvitið sé okkar helsta auðlind.

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Sigurð frá mínútu 17:23.

Hringbraut-06-05-2020Jón G. Hauksson og Sigurður Hannesson ræða saman á Hringbraut.