Fréttasafn10. mar. 2015 Almennar fréttir

Ríkið þrengi hlutverk sitt í flugvallarrekstri

Áhugi er á því að skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á fyrirkomulagi Keflavíkurflugvallar til framtíðar. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í síðustu viku, aðspurður um mögulega sölu flugvallarins að evrópskri fyrirmynd.

Bjarni sagði að nú væri verið að fara í rúmlega 20 milljarða framkvæmdir til að gera flugvöllinn betur í stakk búinn til að taka við auknum fjölda ferðamanna. Gangi spár eftir þurfi að þeim loknum að ráðast í aðrar framkvæmdir upp á 20 milljarða króna. „Þegar það kostar einn milljarð að búa til eitt flughlað fyrir eina viðbótarvél, þá getur vel verið að það sé skynsamlegt að leyfa einkaaðilum að standa að fjármögnun og þar með allri áhættu sem fylgir slíkri fjárfestingu og ríkið kannski þrengi hlutverk sitt varðandi umsjón með vallarstarfsemi,“ sagði Bjarni.

Varðandi hugmyndir um aðkomu einkaframtaksins að fjármögnun eða rekstri annarra stórra verkefna, sagði Bjarni að vel mætti skoða aðkomu einkaaðila að fjármögnun á stórum verkefnum og opna fyrir möguleikann á gjaldtöku, t.d. í tilfelli Sundabrautar. Lítill samstarfsvilji hjá borgarstjórn í Reykjavík hefur þó hamlað því að mögulegt væri að hefja framkvæmdir við Sundabraut. Bjarni talaði um að í tíð fyrri ríkisstjórnar hafi framkvæmdastig ríkisins farið niður í sama stig og það var fyrir 70 árum.

Þá ræddi Bjarni um að stefna þurfi að því að aðstæður hér á landi séu það góðar fyrir alla að ekki þurfi að búa til sérstaka fjárfestingasamninga eða veita ívilnanir. Bjarni rifjaði upp að eitt af þeim eftirminnilegustu atvikum sem hann hafði upplifað í þingsal hafi verið þegar mælt var fyrir tillögu um að álverið í Straumsvík fengi að losna undan fjárfestingasamningnum sem það hafði fengið á sínum tíma. Ástæðan var sú að að almennu aðstæðurnar í landinu voru orðnar betri en samningurinn kvað á um. Hann minnti þó á að alþjóðleg samkeppni sé mikil og verið sé að bjóða gull og græna skóga víða annarsstaðar. 

Tengill á allt samtalið við fjármálaráðherra á iðnþingi:  vimeo.com/121417713  

Umræður í myndskeiðinu sem vitnað er til hér að ofan:

  • Keflavíkurflugvöllur: 23:10 mín
  • Sundabraut: 20:30 / 21:55 mín
  • Fjárfestingasamningar: 04:50 mín
  • Um stöðugleika: 05:45 mín