Fréttasafn20. des. 2017 Almennar fréttir

RSK fyrirmynd annarra opinberra stofnana í nýsköpun

Nýsköpun hjá hinu opinbera snýst um að finna nýjar leiðir til þess að hafa jákvæð áhrif á líf almennings og nýja nálgun til þess að virkja almenning sem samstarfsaðila til þess að móta framtíðina. Nýsköpun gengur út á að breyta skipulagi og hugsunarhætti og nýta tækni og nýja hugsun. Þetta kom meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í fyrirlestri sem hann hélt fyrir starfsmenn ríkisskattstjóra, RSK, fyrr í þessum mánuði.

Í erindi sínu sagði Sigurður jafnframt að móta þyrfti skýra framtíðarsýn um nýsköpun í rekstri hins opinbera þar sem almennt væri lítil áhersla á nýsköpun í ríkisrekstri en það hefur sýnt sig að nýsköpun hjá ríkinu hefur skilað umtalsverðum árangri. Hann sagði að andi nýsköpunar svifi yfir vötnum í starfsemi RSK og þakkaði starfsmönnum RSK fyrir að hafa áhuga á nýsköpun og sýna hana í verki og vera þannig fyrirmynd annarra opinberra stofnana í nýsköpun.