Fréttasafn



9. nóv. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Rúmenía sigurvegari í Ecotrophelia Europe keppninni

Rúmenía sigraði í Ecotrophelia Europe keppninni þar sem háskólanemar keppa um best þróuðu vistvænu matvælin. Keppnin fór fram í París fyrir skömmu í tengslum við SIAL matvælasýninguna og voru það 17 lið háskólanema sem kepptu, þar á meðal lið frá Háskóla Íslands. Í liðinu frá Íslandi voru þeir Björn Kr. Bragason og Dovydas Raila með vöruna BrewBar sem er orkustykki þar sem uppistaðan í hráefninu er hrat úr bjórgerð. 

Mynd14Ragnheiður Héðinsdóttir, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, var dómari í keppninni fyrir hönd Íslands. Ragnheiður segir að keppnin hafi að vanda verið mjög hörð og margar flottar vörur sem voru kynntar en flestar eiga þær það sameiginlegt að nota vannýtt hráefni eða nýstárlegar framleiðsluaðferðir.

Matvara sigurliðsins er Woopie Ice sem er ís að uppistöðu úr mysu, ávextinum quince (svipar til eplis en mun harðara) og plómuhrati. Í öðru sæti varð Cheese it frá Danmörku sem er tilbúið duft til að búa til vegan-ost með því að blanda út í það aquafaba (soð af kjúklingabaunum) sem er próteinríkt og búið ýmsum góðum eiginleikum. Í þriðja sæti varð kexkakan Kof.co frá Þýskalandi, unnin m.a. úr þara og guarana ávexti sem inniheldur mikið koffein. Kexkakan er hugsuð sem fljótlegur og næringarríkur morgunverður fyrir fólk á hlaupum sem sameinar að vera seðjandi og vekja með koffeini. 

Sérstök verðlaun fyrir athyglisverðustu nýjungina hlaut franska liðið með vöruna HUSH (Heat-Up Shake Health), þykkan og saðsaman ávaxtadrykk sem á að hita í örbylgjuofni og neyta á köldum vetrardögum. Verðlaun fyrir bestu kynningaráætlunina fékk hollenska liðið með vöruna PANGGIES, pönnukökumix sem inniheldur þurrkað og malað grænmeti og á að hjálpa foreldrum ungra barna að koma ofan í þau grænmeti.    

Hér er hægt að skoða myndir af sigurliðunum og myndband af sigurvegurunum.

Mynd8_1541759127940

Mynd9

Mynd6_1541760762726

Mynd13

Íslenska liðið frá Háskóla Íslands sem keppti, talið frá vinstri: Björn Kr. Bragason, Björn Viðar Aðalbjörnsson, leiðbeinandi frá HÍ, og Dovydas Raila.