Fréttasafn18. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Ljósmyndarafélag Íslands

Rut og Ragnar fá viðurkenningu Ljósmyndarafélags Íslands

Fjölmennt var á jóla- og fyrirlestrafundi Ljósmyndarafélags Íslands sem haldinn var 13. desember sl. í sal Hard Rock Café í Lækjargötu 2. Á fundinum fluttu brúðkaupsljósmyndararnir Styrmir og Heiðdís fyrirlestur undir yfirskriftinni Að svindla í lífinu og skapa sitt eigið starf. Boðið var upp á smáréttahlaðborð og drykki meðan á fyrirlestrinum stóð. Á fundinum fór einnig fram afhending viðurkenninga en stjórn félagsins ákvað að veita tveimur ljósmyndurum heiðursaðild að félaginu fyrir starf sitt í félaginu og framlag til ljósmyndunar á Íslandi, félaginu og faginu til heilla. Viðurkenninguna fengu Rut Hallgrímsdóttir og Ragnar Th. Sigurðsson. 

Við afhendingu viðurkenninganna stiklaði Guðmundur Viðarsson, formaður Ljósmyndarafélags Íslands, á stóru úr ferli Ragnars og Rutar:

Rut hefur starfrækt eigin ljósmyndastofu, Ljósmyndir Rutar, frá árinu 1988 og starfar nú með Silju Thorlacius í Skipholt á ljósmyndastofu þeirra. Myndataka af börnum, fjölskyldum og portrett myndatökum hefur verið stór hluti af störfum Rutar gegnum tíðina. Rut lærði ljósmyndun í Iowa, Bandaríkjunum við Hawkeye Institute of Technology á árunum 1978 til 1979. Hún stundaði nám hjá Sigurgeiri Sigurjónssyni ljósmyndara og öðlaðist meistararéttindi árið 1986. Rut hefur verið félagi í Ljósmyndarafélagi Íslands frá árinu 1978 og hefur starfað þar í stjórn og prófnefnd. Það var Rán Bjargar, stjórnarmaður félagsins, sem  veitti Rut viðurkenninguna fyrir hönd félagsins.

Ragnar hóf feril sinn sem blaðaljósmyndari á Dagblaðinu árið 1975. Hann hefur verið félagi í Ljósmyndarafélagi Íslands frá árinu 1977 eða í 46 ár. Hann menntaði sig í ljósmyndun á Íslandi og í Svíþjóð og hefur starfrækt myndabanka og ljósmyndaþjónustu frá árinu 1985 og gerir enn. Hann hefur verið ötull talsmaður fyrir höfundarétt ljósmyndara á vegum Myndstefs og verið formaður stjórnar þess í um 20 ár og komið að mörgum samningum um greiðslu fyrir höfundaverk ljósmyndara. Hann hefur unnið með Ljósmyndarafélagi Íslands ötullega öll þau ár sem hann hefur verið félagsmaður. Það var Gunnar Leifur, stjórnarmaður félagsins, sem veitti Ragnari viðurkenninguna fyrir hönd félagsins.

Á myndinni hér fyrir ofan eru Ragnar Th. Sigurðsson og Rut Hallgrímsdóttir handhafar heiðursverðlauna Ljósmyndarafélag Íslands. Mynd/Gunnar Leifur.

Jolafundu_rLI_13_des_RTHRagnar Th. Sigurðsson veitir heiðursverðlaunum Ljósmyndarafélags Íslands viðtöku frá Gunnari Leifi, sem afhenti þau fyrir hönd félagsins, ásamt Guðmundi Viðarssyni, formanni Ljósmyndarafélags Íslands. Mynd/Rán Bjargar.

JolafundurLI_13_des_RUTRán Bjargar ljósmyndari afhendir Rut Hallgrímsdóttur heiðursverðlaunin ásamt formanni Ljósmyndarafélags Íslands, Guðmundi Viðarssyni. Mynd/Gunnar Leifur.