Fréttasafn



9. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda

RÚV vegur að hagsmunum íslensks kvikmyndaiðnaðar

„Við vöktum fyrst athygli á þessum málum árið 2018 og höfum síðan þá barist fyrir því að breytingar verði gerðar þar sem við teljum framkvæmd RÚV ekki í samræmi við markmið um eflingu á íslenskum kvikmyndaiðnaði,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, í frétt Morgunblaðsins um athugasemd fjölmiðlanefndar við hvernig RÚV skilgreinir kaup sín af sjálfstæðum framleiðendum en samkvæmt lista yfir kaup RÚV af sjálfstæðum framleiðendum eru verktakagreiðslur til dagskrárgerðarfólks, framleiðenda og myndatökumanna hjá RÚV meðal þess sem talið er til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum. 

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi ítrekað vakið athygli á málinu. Samningagerðin og kaupin hafi verið skoðuð ítarlega og telji SI að háttsemin vegi að hagsmunum kvikmyndagreinarinnar – fjárhæðirnar nemi hundruðum milljóna á samningstíma þjónustusamningsins sem tók gildi árið 2016. 

Stenst ekki skoðun

Sigríður segir að það hvernig RÚV hafi staðið að framkvæmd þessa hluta þjónustusamningsins fari beinlínis gegn hagsmunum sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda og sé ekki í anda samnings, sem undirritaður hafi verið svo að RÚV mætti í auknum mæli styðja innlenda framleiðslu. „Þess vegna fögnum við því að fjölmiðlanefnd taki svona til orða. Nú er nefndin búin að staðfesta þá gagnrýni okkar að þetta standist ekki skoðun.“ 

Engar breytingar gerðar síðastliðin tvö ár

Þegar Sigríður er spurð hvort henni þyki framganga RÚV vera alvarleg segir hún að alvarlegast sé að ekki hafi nein breyting verið gerð á þessum málum innan RÚV þegar gagnrýni og athugasemdir fóru að berast, meðal annars frá SI, það hljóti að benda til þess að það hafi ekki verið mikill vilji til að bregðast við. „Að lítið sem ekkert hafi breyst á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að við vöktum athygli á samningagerð RÚV og kaupum á efni frá sjálfstæðum framleiðendum fyrst er alvarlegt, já. Það sem einnig er alvarlegt er að það fer ekkert á milli mála að þetta er ekki ómeðvitað. Ákvarðanir um að standa svona að þessu eru væntanlega teknar innanhúss hjá RÚV.“ 

RÚV geri upp við íslenskan kvikmyndaiðnað

Sigríður segir í fréttinni að einfalt væri fyrir RÚV að gera upp við íslenskan kvikmyndaiðnað og að hún bindi vonir við að kveðið verði sérstaklega á um nýtt verklag í þessum málum í nýjum þjónustusamningi ríkisins við RÚV. 

Þá segir hún einnig í Morgunblaðinu að auka mætti það hlutfall sem RÚV sé skylt að nota af tekjum sínum til kaupa á sjálfstæðri framleiðslu, sem nemi þeim fjárhæðum sem vantaði upp á á síðustu árum. Þá bendir Sigríður á að eins þyrfti að skoða betur samningagerð RÚV. „Við höfum bent á að RÚV hafi verið að semja um eignarhlut í verkefnum sem var á skjön við framlag þeirra til framleiðslunnar.“

Morgunblaðið / mbl.is, 9. nóvember 2020.

Morgunbladid-09-11-2020