Fréttasafn



31. mar. 2020 Almennar fréttir

SA hvetja fólk og fyrirtæki til að virða lög og stöðva bótasvik

Samtök atvinnulífsins hvetja fólk og fyrirtæki til að fara í einu og öllu að nýsamþykktum lagaákvæðum um hlutaatvinnuleysisbætur. Á vef SA kemur fram að það sé með öllu óheimilt að starfsfólk, sem hefur farið á hlutaatvinnuleysisbætur, vinni umfram hið nýja starfshlutfall án þess að Vinnumálastofnun sé tilkynnt um hækkun starfshlutfalls og launagreiðslna. Stuðli atvinnurekandi að slíkum bótasvikum þá geti það varðað við hegningarlög.

Þá hvetja SA atvinnurekendur, stéttarfélög, launafólk og aðra sem búa yfir upplýsingum um bótasvik að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Skoða verði allar ábendingar og taka á af festu. 

Jafnframt kemur fram á vef SA að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og landsmenn allir séu um þessar mundir að taka höndum saman til að standa vörð um störf við þessar erfiðu aðstæður. Stjórnvöld hafi stigið fram með aðgerðir, eins og hlutaatvinnuleysisbætur, í þeirri viðleitni. Það sé til skammar ef það sé svo að einhver sé að misnota sér slíkar neyðarráðstafanir. Það sé til þess fallið að draga úr samstöðu um slíkar aðgerðir sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir allt atvinnulífið.