SA telja atkvæðagreiðslu Eflingar ólögmæta
Samtök atvinnulífsins hafa skorað á Eflingu - stéttarfélag að stöðva nú þegar atkvæðagreiðslu um verkfall sem koma á til framkvæmda 8. mars næstkomandi en samtökin telja ólöglega staðið að atkvæðagreiðslu um verkfallið.
Á vef SA kemur fram að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er heimilt að láta vinnustöðvun einungis ná til ákveðins hóps félagsmanna en þá er ákvörðun tekin með atkvæðum þeirra sem vinnustöðvun er ætlað að taka til. Samkvæmt fréttum áætlar Efling að verkfallið nái til 700 félagsmanna en félagið hefur hins vegar boðið yfir 8000 félagsmönnum að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallið. SA telja það fyrirkomulag ólögmætt enda mætti með þeim hætti fá verkfall samþykkt jafnvel þótt allir þeir sem vinnustöðvun er ætlað að taka til greiði atkvæði gegn verkfalli.
Verði Efling ekki við áskorun Samtaka atvinnulífsins munu samtökin höfða félagsdómsmál gegn stéttarfélaginu. Niðurstaða dómsins mun liggja fyrir áður en verkfalli er ætlað að koma til framkvæmda.