Fréttasafn24. nóv. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Sagafilm og GunHil í eina sæng

Sagafilm ehf. hefur keypt allt hlutafé í GunHil ehf. en bæði fyrirtækin eru aðildarfyrirtæki SI. Frá og með 1. janúar á næsta ári munu félögin starfa undir sameinuðu eignarhaldi Sagafilm ehf. með 40 starfsmönnum. Hluthafar í GunHil verða frá þeim tíma hluthafar í Sagafilm. Hilmar Sigurðsson, sem hefur mikla reynslu af rekstri í skapandi greinum á Íslandi, Ítalíu og í Danmörku, tekur við sem forstjóri sameinaðs félags og mun jafnfram stýra GunHil, sem verður rekið sem sjálfstætt dótturfyrirtæki Sagafilm. Við sameininguna tekur Árni Geir Pálsson, stjórnarformaður GunHil sæti í stjórn Sagafilm. Í fréttatilkynningu kemur fram að eftir að hafa starfað í 10 ár hjá Sagafilm, fyrst sem fjármálastjóri og síðustu ár sem forstjóri, hefur Guðný Guðjónsdóttir ákveðið að söðla um og hyggur á ferðalög ásamt fjölskyldu sinni um óákveðinn tíma.

Markmiðið með sameiningunni er að styrkja og efla eigin framleiðslu sem og sókn Sagafilm á erlenda markaði. Sagafilm hefur verið leiðandi á íslenskum kvikmynda‐, sjónvarps‐ og auglýsingamarkaði í áratugi og undanfarin misseri hefur efni úr smiðju Sagafilm notið aukinna vinsælda erlendis. Spennuþáttaröðin Réttur 3 (CASE) er nú aðgengileg yfir 50 milljón áskrifenda Netflix víða um heim, auk þess sem fjöldi evrópskra sjónvarpsstöðva hefur tryggt sér sýningarrétt á henni. GunHil vinnur að framleiðslu „Lói – þú flýgur aldrei einn“, sem er tölvugerð teiknimynd fyrir alþjóðamarkað og hefur nú þegar verið seld til sýninga í kvikmyndahúsum í yfir 30 löndum og verður jólamynd í kvikmyndahúsum á Íslandi 2017.