Fréttasafn15. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Saman gegn sóun var vel sótt

Fyrirtæki í endurvinnslu og úrgangsmeðhöndlun sýndu tæki og lausnir á sýningunni Saman gegn sóun í Perlunni. Fjöldi manns lagði leið sína í Perluna og skoðaði nýja bíla sem geta tekið þrjár tegundir úrgangs í einni ferð, tætara og fleiri stórvirk tæki. Hægt var að kynna sér fjölþættar leiðir til að flokka úrgang og fá fróðleik um ávinning þess að spara auðlindir og minnka sóun. Fyrirtæki sýndu meðal annars hvernig endurvinnsla á umbúðum, timbri, málmum og lífrænum úrgangi skilar sér í nýjum vörum.

Í tengslum við sýninguna héldu Fenúr (Fagráð um endurnýtingu og úrgang) og Umhverfisstofnun ráðstefnu á Nauthól um nýjungar og framfarir á sviði úrgangsmála. Fundarstjóri var Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI. Á ráðstefnunni var fjallað um hringrásarhagkerfið og möguleika fyrirtækja og einstaklinga til að leggja sitt af mörkum til að meira magn efna fari í hringrás endurvinnslu. Meðal annars var farið yfir hvernig má lágmarka umhverfisáhrif ferðamanna og hvernig má minnka matarsóun í stóreldhúsi. Kynntar voru aðgerðir til að draga úr burðarplastpokanotun og sagt frá tilraunaverkefni um burðarplastpokalaust sveitarfélag.