Fréttasafn



12. sep. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Samdráttur í byggingariðnaði hefur víðtæk áhrif

Í fréttum RÚV er fjallað um nýja greiningu SI sem sýnir að samdráttur í byggingariðnaði er hafinn. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt RÚV að samdrátturinn hafi víðtæk áhrif, til dæmis í hærri vöxtum, sem komi öllum við. „Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem við sjáum þessi merki. Og ef fram fer sem horfir erum við að fara að sjá aftur þennan efnahagslega vítahring sem við höfum verið að reyna að losa okkur út úr á síðustu misserum. Sem er skortur á íbúðum, sem leiðir til aukinnar verðbólgu og hærri vaxta.“ 

Ingólfur segir jafnframt eina afleiðingu þessa vera að fólk geti síður keypt íbúðir. „Fólkinu er haldið á hliðarlínunni, það kemst ekki inn á markaðinn út af þessu, þannig að það getur ekki keypt. Það er stór hluti af því vandamáli sem við er að glíma í augnablikinu.“

Atvinnugrein sem er notuð til sveiflujöfnunar

Gylfi Gíslason, verktaki og framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins Jáverks, segir í frétt RÚV að fátt komi á óvart, þessi samdráttur hafi verið fyrirsjáanlegur. „Yfirlýst markmið og hlutverk Seðlabankans er að reyna að draga úr umsvifum í hagkerfinu og það er að byrja að skila sér svona hraustlega.“ Gylfi segir að aðföng hafi hækkað, eitt af þeim sé fjármagn sem hafi hækkað mjög mikið. „Við erum með mjög ströng lánþegaskilyrði.“ Hann nefnir einnig hækkun á opinberum álögum á íbúðarhúsnæði í byggingu. „Og þegar allt þetta er talið saman þá er það á nippinu að við getum byggt íbúðir sem fólk getur keypt.“ 

Gylfi segir jafnframt í frétt RÚV: „Það hefur reyndar verið vandamál í gegnum tíðina, með þessa atvinnugrein, að hún verður svolítið afgangs og hefur verið notuð til sveiflujöfnunar. Það er einfalt að strika út á fjárlögum nokkur hús og nokkra vegi - en á bak við þetta eru fyrirtæki og fólk. Þegar það verður svona mikill samdráttur þá kostar að byggja upp aftur þegar við þurfum virkilega á þessu að halda.“

Á vef RÚV er hægt að horfa á fréttina í heild sinni. 

RÚV, 11. september 2025.