Fréttasafn22. des. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Samdráttur í íbúðauppbyggingu þvert á þarfir landsmanna

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um stöðuna á húsnæðismarkaði. Hann segir að það sé mikill samdráttur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis þvert á þarfir landsmanna. „Staðan er sú að hár fjármagnskostnaður, háir vextir hafa auðvitað áhrif þarna eins og annars staðar þannig að kostnaður við uppbyggingu hefur aukist mikið á stuttum tíma. Það er til dæmis talað um það að aukning í kostnaði við meðalíbúð hefur hækkað um 7 milljónir á íbúð á milli ára. Það munar um minna og gerir það að verkum að það fara þá færri verkefni af stað. Verktakar eru þá að klára þau verkefni sem þeir hafa byrjað á, sölutíminn hefur líka lengst sem kostar mikið. Það er til dæmis talað um það að fjármagnskostnaðurinn í hundrað íbúða verkefni sé ca ein íbúð á mánuði. Þannig að allar tafir og langur sölutími hafa sannarlega áhrif.“

Eftirspurn haldið niðri með háum vöxtum Seðlabankans og greiðslumati                

Sigurður segir að það hafi sést merki um samdrátt tiltölulega snemma á árinu, hvort sem það væri í sölu byggingarefna eða áformum verktakanna sjálfra. „Eftirspurninni er haldið niðri með háum vöxtum af Seðlabankanum en líka með skilmálum sem snúa að greiðslumati.“

Þörfin fyrir íbúðarhúsnæði fer ekki minnkandi             

Sigurður segir í viðtalinu að þörfin fyrir íbúðarhúsnæði fari ekkert minnkandi. „Höfum það í huga að landsmönnum er að fjölga um ca eittþúsund í hverjum mánuði þessi misserin. Þannig að það þarf auðvitað húsnæði fyrir allt þetta fólk sem hérna býr. Eins og við vitum þá er framkvæmdatíminn um tvö ár þannig að það sem við erum að sjá í dag hefur þá áhrif eftir eitt eða tvö ár. Auðvitað höfum við áhyggjur af því að þegar verðbólgan kemur niður og vextirnir sömuleiðis og kaupgetan eykst og þar með eftirspurnin þá geti það leitt til mikilla hækkana á markaðnum vegna þess einfaldlega að það eru of fáar íbúðir á markaðnum það sem er verið að byggja og koma inn á markaðinn.“ 

Þarf samhent átak ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins

Sigurður segir að það þurfi samhenti átak stjórnvalda, sem sagt ríkis og sveitarfélaga, og svo iðnaðarins til þess að breyta þessu. „Og við heyrum líka að verkalýðshreyfingin er mjög áhugasöm eðli máls samkvæmt um þessi mál. Þau hafa lagt áherslu á húsnæðismálin í aðdraganda kjarasamninga sem eitt lykilmál sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins þurfa að koma að.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 21. desember 2023.