Samdráttur í iðnaði sem er stærsta útflutningsgrein hagkerfisins
Í Viðskiptablaðinu fjallar Sveinn Ólafur Melsted um nýja greiningu SI þar sem kemur meðal annars fram að útflutningstekjur iðnaðar námu 698 milljörðum króna í fyrra sem er 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Til samanburðar námu útflutningstekjur ferðaþjónustunnar á síðasta ári 598 milljörðum króna (32%) og sjávarútvegs 352 milljörðum króna (19%). Bent sé á að iðnaður sé stærsta útflutningsgrein hagkerfisins og því skipti þjóðarbúið miklu með hvaða hætti greinin þróast.
Þá kemur fram í umfjölluninni að samkvæmt greiningu SI voru fluttar út iðnaðarvörur fyrir 504 milljarða á síðasta ári, auk þess sem þjónustuútflutningur iðnaðar nam 194 milljörðum. Með vexti hugverkaiðnaðar á síðustu árum hafi hluti þjónustu í heildarútflutningi iðnaðar farið vaxandi, en innan hugverkaiðnaðar sé bæði vöru- og þjónustuútflutningur. Nam hluti þjónustu í útflutningi iðnaðar 28% árið 2023 samanborið við 14% árið 2013. Í þessu ljósi sé mikilvægara nú en áður að horfa til heildarumfangs útflutningstekna iðnaðar en ekki einungis útflutnings iðnaðarvara þegar þróun og vægi útflutnings greinarinnar er metið ásamt áhrifum þess á hagkerfið.
Á vef Viðskiptablaðsins er hægt að nálgast umfjöllunina í heild sinni.
Viðskiptablaðið / vb.is, 10. júlí 2024.