Fréttasafn



4. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Sameining í prentiðnaði

Prentsmiðjurnar Litróf, GuðjónÓ og Prenttækni sem allar eru meðal aðildarfyrirtækja SI hafa sameinast undir merki Litrófs en fyrirtækið er til húsa í Vatnagörðum 14 í Reykjavík. Í fréttatilkynningu segir að fyrirtækin sem öll séu rótgróin og vel þekkt hafi um áratugaskeið boðið alhliða prentþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Fyrir nokkru keypti Litróf bókbandsvinnustofuna Bókavirkið ehf. og sé því með alla framleiðslulínuna við bókagerð og geti boðið bæði kiljur og harðspjaldabækur.

Konráð Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri Litrófs. segir Litróf vera orðið býsna gamalgróið fyrirtæki og hafi verið rekið á sömu kennitölunni í 77 ár en það var stofnað árið 1943. „Litróf hefur vaxið talsvert á síðustu árum og hefur hlotið nafnbótina Framúrskarandi fyrirtæki undanfarin ár. Með sameiningunni við GuðjónÓ og Prenttækni erum við fyrst og fremst að bæta reksturinn enn frekar og tryggja áfram góða alhliða prentþjónustu fyrir fólk og fyrirtæki.“ 

Prentsmiðjan Litróf er með Svansvottun sem tryggir lágmörkun neikvæðra áhrifa rekstursins á umhverfi og heilsu. GuðjónÓ varð á sínum tíma fyrsta umhverfisvæna prentsmiðjan á Íslandi en síðar fengu Litróf og Prenttækni líka þá vottun. Umhverfisvottunin felur í sér nákvæmt eftirlit á allri efnisnotkun prentsmiðjunnar, m.a. til að minnka sóun á pappír og prentlitum. Í  tilkynningunni segir að það skili sér beint í hagkvæmari rekstri á fyrirtækinu, bæði með lægri sorphirðu- og urðunargjöldum og mun betri nýtingu á hráefni.