Fréttasafn17. maí 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Samkeppniseftirlitið tekur undir áhyggjur SI og SA af keðjuábyrgð

Samkeppniseftirlitið tekur undir áhyggjur Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins af keðjuábyrgð í umsögn sem send var til fjárlaganefndar í vikunni. Samtök iðnaðarins hafa gert fjölmargar athugasemdir við ákvæði um keðjuábyrgð sem innleitt var í lög um opinber innkaup árið 2019. Ákvæðið kveður á um að aðalverktaki skuli tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.

Við innleiðingu lagaákvæðisins vöktu Samtök iðnaðarins athygli á því að verið væri að gullhúða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins 2014/24/ESB er heimilar kaupanda að greiða beint til undirverktaka greiðslur fyrir þjónustu, vöru eða verk, svokallaðar verktakagreiðslur. Samtökin bentu á að íslensk stjórnvöld gengu lengra með því að tengja heimildina við launagreiðslur auk þess sem að útfærsla ákvæðisins væri ekki nægilega vel ígrunduð og erfið í framkvæmd l.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup. Í vikunni skiluðu Samtök iðnaðarins ásamt Samtökum atvinnulífsins umsögn um málið þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna breytinga er snúa m.a. að heimild aðalverktaka til gagnaöflunar til að kalla eftir launaseðlum, tímaskýrslum og yfirliti yfir gildandi sjúkra- og slysatryggingar frá undirverktaka og starfsmannaleigum. Með breytingunum er aðalverktaka veittur ótvíræður réttur til viðkvæmra persónulegra upplýsinga hjá starfsmönnum undirverktaka sem og viðkæmum upplýsingum um rekstur hans. Undirverktaki og aðalverktaki geta oft á tíðum jafnframt verið samkeppnisaðilar. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kemur fram að eftirlitið taki undir áhyggjur samtakanna og telur að leita verði leiða til þess að takmarka mögulegt tjón sem af þessu geti hlotist og leggur til að takmarka heimild til gagnaöflunar við kaupanda viðkomandi þjónustu.

Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins gera jafnframt athugasemdir við ákvæði frumvarpsins er snúa að valdsviði kærunefndar útboðsmála þar sem nefndinni er sniðinn of þröngur stakkur með því að takmarka málsmeðferð nefndarinnar við það kæruefni sem fyrir hana er lagt. Bæði samtökin og Samkeppniseftirlitið leggja áherslu á að nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og ber að tryggja að mál séu rannsökuð og upplýst áður en úrskurðað er í álitamálum.

Ekkert stjórnvald hefur eftirlit með eftirfylgni laganna og er markaðnum falið eftirlit í formi kæra. Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir bættu eftirliti með opinberum innkaupum um árabil. Að mati samtakanna þarf að tryggja að innan stjórnkerfisins sé eftirlitsaðili líkt og tíðkast í Norðurlöndunum. Samkeppniseftirlitið tekur undir þessi sjónarmið og telur mikilvægt að eftirlit sé til staðar með opinberum innkaupum sem tryggir góða framkvæmd og hagkvæmni.