Fréttasafn8. apr. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Samkeppnishæf rekstrarskilyrði forsenda orkusækins iðnaðar

Nauðsynleg forsenda fyrir því að orkusækinn iðnaður blómgist áfram á Íslandi er að rekstrarskilyrðin séu samkeppnishæf. Tvö af þremur álverum á Íslandi starfa ekki af fullum afköstum og hafa vísað til þess að verð orkunnar sé ósamkeppnishæft. Það er tap fyrir alla, áliðnaðinn, orkufyrirtækin og ekki síst þjóðarbúið sem verður af mikilvægum gjaldeyristekjum. Þetta segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í grein sinni í ViðskiptaMogganum í dag. Hann segir það vera skref í rétta átt þegar iðnaðarráðherra hafi ákveðið að ráðast í sjálfstæða og óháða úttekt á samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar á Íslandi en síðan sú ákvörðun hafi verið tekin hafi horfurnar versnað.

Álframleiðsla um allan heim á undir högg að sækja

Pétur segir að nú eigi álframleiðsla um heim allan undir högg að sækja. Fyrst beri að nefna þá áskorun sem fylgi því að halda starfsemi álvera gangandi á tímum heimsfaraldurs. Höfuðáhersla sé lögð á það í álverum hér á landi að tryggja öryggi starfsfólks og hafi verið gripið til róttækra ráðstafana til að endurskipuleggja starfsemina á þessum fordæmalausu tímum. Ofan á það bætist hrun í eftirspurn áls. Munar mestu um að bílaframleiðendur á meginlandi Evrópu hafi nánast skrúfað fyrir framleiðsluna og mörg önnur fyrirtæki í áframvinnslu áls lokað. Hann segir heimsmarkaðsverð áls hafi fallið niður fyrir 1.500 dollara á tonnið og sé því spáð að það fari niður fyrir 1.400 dollara. Talið sé líklegt að álver loki í Evrópu og Ástralíu. Versnandi staða á mörkuðum sé þegar farin að hafa áhrif á rekstur álvera hér landi.

Álverin stóðu þétt við bakið á stjórnvöldum í bankahruninu

Þá kemur fram í grein Péturs að álframleiðsla á Íslandi hafi staðið af sér hverja niðursveifluna af annarri, enda sé kennitala álversins í Straumsvík jafngömul álverinu. Þegar bankahrunið hafi riðið yfir árið 2008 hafi álverin staðið þétt við bakið á stjórnvöldum og veitt mikilvæga innspýtingu í efnahagslífið, m.a. með 60 milljarða fjárfestingu í álverinu í Straumsvík sem sé sú stærsta í íslensku efnahagslífi frá hruni.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Pétur að við höfum kynnst mótlæti áður. „Öll skilyrði eru fyrir hendi að halda áfram lífskjarasókninni, en til þess þarf öflugt atvinnulíf með samkeppnishæf rekstrarskilyrði sem skapar verðmæti fyrir þjóðarbúið.“

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni.