Fréttasafn



9. des. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Samkeppnishæfni er lykilatriði fyrir fæðuöryggi Íslands

Samkeppnishæfni er lykilatriði fyrir fæðuöryggi. Ísland stendur nokkuð vel þar sem okkur hefur borið gæfa til að viðhalda okkar samfélagslegu kerfum sem afla matvæla og framleiða. Að efla samkeppnishæfni á því sviði gerir okkur í stakk búin til að takast á við áföll. Þetta sagði Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, meðal annars í umræðum á málþingi atvinnuvegaráðuneytisins um fæðuöryggi sem haldið var í lok nóvember í Kaldalóni í Hörpu.

Vantar fyrirsjáanleika og stöðugleika til að byggja upp áfallaþol

Sigurður Helgi benti á að áfallaþol snúist ekki bara um birgðahald, það væri mikilvægur þáttur rétt eins og úttektir til að vita hvernig við stöndum. Hann sagði það snúast fremur um að viðhalda samfélagslegum kerfum og efla viðnámsþrótt þeirra svo þau geti tekist á við áföll. Sigurður Helgi benti jafnframt á að ein áskorun okkar Íslendinga væri skortur á langtímahugsun og fyrirsjáanleika sem hafi áhrif á fjárfestingu. Hann sagði að einn þáttur samkeppnishæfni væri að gera áætlanir til lengri tíma. Það væri ómögulegt að auka fjárfestingu í uppbyggingu og starfsemi ef aðilar viti ekki hvaða reglur munu gilda um starfsemina eftir eitt til tvö ár. Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki væru atriði sem vanti hér á landi svo við getum byggt upp áfallaþol eins og við viljum.

Nýjar skýrslur um neyðarbirgðir matvæla á Íslandi

Á málþinginu voru kynntar tvær nýjar skýrslur sem unnar hafa verið fyrir atvinnuvegaráðuneytið, skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands eftir Torfa Jóhannesson sem fjallar um neyðarbirgðir fyrir íslenska matvælaframleiðslu og skýrsla Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands sem segir frá tillögum að neyðarbirgðum matvæla á Íslandi. 

Á vef Stjórnarráðsins er hægt að nálgast upptöku og frekari upplýsingar um málþingið.

Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.