Fréttasafn



15. maí 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Samkeppnishæfni íslenskrar kísilmálmframleiðslu versnar

Útflutningstekjur kísiliðnaðar námu 40,2 milljörðum króna árið 2024 og hafa þær tvöfaldast á fimm árum. Þetta kemur fram í nýju staðreyndablaði sem SI hefur gefið út um kísiliðnað á Íslandi. Þar kemur einnig fram að samkeppnishæfni íslenskrar kísilmálmframleiðslu gagnvart erlendum framleiðendum hafi verið að versna. Útflutningstekjur voru 2,1% af heildar-útflutningstekjum hagkerfisins árið 2024, heildarvelta hafi numið 41,3 milljörðum króna sama ár og að útflutningstekjur séu 97% af veltu greinarinnar.

Framleiðslugeta nánast fullnýtt 

Þá kemur fram að útflutningur kísilmálms hafi numið ríflega 153 þúsund tonnum á síðasta ári og hafi aldrei verið meiri. Á Íslandi eru tvö fyrirtæki sem stunda kísilmálmframleiðslu hér á landi, Elkem Ísland á Grundartanga við Hvalfjörð og PCC á Bakka við Húsavík. Elkem Ísland hóf starfsemi árið 1979 og er framleiðslugeta um 120.000 tonn af hágæða kísilmálmi á ári og PCC hóf starfsemi árið 2018 og er framleiðslugeta þess fyrirtæki um 35.000 tonn á ári. Samanlögð framleiðslugeta fyrirtækjanna tveggja er því 155 þúsund tonn og hefur nánast verið fullnýtt til útflutnings síðustu tvö ár.

Miklar verðsveiflur á kísilmálmi

Verðsveiflur á kísilmálms hafa verið miklar á síðustu árum, sem dæmi var FOB verð af tonni af kísiljárni frá Elkem um 155 þúsund krónur árið 2020, hækkaði síðan í 447 þúsund
krónur árið 2022 en lækkaði síðan aftur niður í 247 þúsund krónur árið 2024. Í staðreyndablaði SI kemur fram að sveiflur í útflutningsverðmæti kísilmálms síðustu ár skýrist að mestu af sveiflum á heimsmarkaðsverði kísilafurða.

Ísland í 6. sæti í framleiðslu kísilmálms í heiminum

Í staðreyndablaði SI kemur fram að Ísland sé sjötti stærsti framleiðandi af kísilmálmi í heiminum. Kína sé stærsti framleiðandi kísilmálms og hafi tvöfaldað framleiðslugetu sína síðastliðin áratug og keyri kísilmálmframleiðslu sína á 50-70% afköstum í dag. Á eftir Kína komi Rússland, Bandaríkin, Brasilía og Noregur og svo Ísland í sjötta sæti.

Betri rekstrarskilyrði kísilmálmframleiðenda í Kína, Noregi og Kanada

Jafnframt kemur fram að samkeppnishæfni íslenskrar kísilmálmframleiðslu gagnvart erlendum framleiðendum hafi verið að versna. Íslenskir málmframleiðendur séu í alþjóðlegri samkeppni við framleiðendur sem búi við betri rekstrarskilyrði til að mynda í Kína, Noregi og Kanada. Þá segir að Evrópusambandið og Bandaríkin hafi skilgreint kísil sem mikilvægt hráefni og samkeppnishæfni iðnaðar í Evrópu sé veikur og gæti versnað en frekar í tollastríði Bandaríkjanna við umheiminn og geti það komið niður á íslensku kísilmálmframleiðslunni. Evrópskur iðnaður sé einn stærsti viðskiptavinur íslenskrar kísilmálmframleiðslu. Einnig segir að væntingar um álag á verð afurða grænnar framleiðslu hafi hríðversnað eftir forsetaskipti í USA og uppgang Kína.

Hér er hægt að nálgast staðreyndablað SI um kísiliðnað á Íslandi.

 

Utfl._kisill



Viðskiptablaðið, 15. maí 2025.